Yfir 1400 bílar í gegnum Múlagöng á laugardaginn

Talsvert álag var í Múlagöngum við Ólafsfjörð um helgina. Göngin eru barns síns tíma, einbreið, þröng og dimm og oft erfitt að meta hversu langt maður kemst á milli útskota. Alls voru 1420 bílar sem fóru í gegnum göngin á laugardaginn, og var mesta álagið frá hádegi og framundir kvöldmat. Á sunnudag fóru 1271 bíll í gegnum göngin og náði hámarki um miðjan dag þegar 33 bílar fóru á 10 mínútum í gegnum göngin. Umferðin er síst minni í dag,en þegar þessi frétt er skrifuð þá hafa 1084 bílar farið í gegnum göngin kl. 18:30.

Mest er álagið þegar stórar ferðahelgar eru í Fjallabyggð, en þá hefur stundum þurft að handstýra í gegnum göngin til að forðast slys og miklar tafir.

Samkvæmt norskum stöðlum þá eiga einbreið göng, með útskotum, að geta annað allt að 1000 bílum á sólarhring en það merkir að stærsta klst. sé u.þ.b. 100 bílar á klst.