Von á fjórum skemmtiferðaskipum til Siglufjarðar á morgun

Það má reikna með fjölda erlendra ferðamanna í miðbæ Siglufjarðar á morgun, fimmtudaginn 12. júlí,  en áætlað er að fjögur erlend skemmtiferðaskip heimsæki fjörðinn. Alls verða þetta um 574 farþegar sem koma frá skipunum Pan Orama, Hebridean Sky, National Geographic Explorer og Le Soleal. Þrjú þeirra stoppa fyrir hádegið, en National Geographic Explorer kemur til hafnar kl. 13:00. Þetta mun vera met á Siglufirði í fjölda skemmtiferðaskipa á einum degi. Í nokkur skipti hafa þó komið tvö skip og hefur það gengið vel.

Le Soleal er glæsilegt skip sem kom einnig í fyrra í eina heimsókn til Siglufjarðar og verður þetta eina heimsóknin í ár.  Skipið er franskt og var smíðað árið 2013. Skipið tekur alls 265 farþega og er með 160 manns í áhöfn. Skipið Hebridean Sky er að koma í fyrsta skiptið til Siglufjarðar undir þessu nafni en það mun alls koma í fjórar heimsóknir í sumar. Skip hét áður Sea Explorer og kom til Siglufjarðar árin 2015 og 2017. Skipið tekur um 110 farþega og er með 72 áhafnarmeðlimi en það er gert út frá London.

Minnsta skip sumarsins er Pan Orama en það tekur aðeins 49 farþega, er með 16-18 manna áhöfn og 24 herbergi.