Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík og PCC BakkiSilicon hafa undirritað áframhaldandi samstarfssamning til næstu tveggja ára.
Í samkomulaginu felst meðal annars að knattspyrnuvöllurinn og íþróttahöllin á Húsavík munu bera nafn PCC en Völsungur mun leggja áherslu á að virkja starfsfólk PCC og börn þeirra til íþróttaiðkunar. Sérstök áhersla verður lögð á íþróttaiðkun barna af erlendum uppruna.
Við undirritun samningsins komu fulltrúar PCC Bakki Silicon í heimsókn í vallarhúsið á Húsavík og voru með kynningu á starfsemi fyrirtækisins fyrir fimmtudags gönguhóp Völsungs.
Jónas Halldór Friðriksson, framkvæmdastjóri Völsungs:
,,Það er gríðarleg ánægja innan Völsungs með samstarfið við PCC undanfarin tvö ár og það er tilhlökkun að halda því áfram. Fjárstuðningur PCC er gríðarlega mikilvægur í starfsemi félagsins. Þar að auki munum við halda áfram að kynna félagið okkar fyrir nýjum íbúum í samstarfi við PCC með það að markmiði að gera sem flesta virka í starfsemi félagsins. Þess má geta að allar deildir félagsins munu njóta góðs af þessu samstarfi.”
Marella Steinsdóttir, mannauðsstjóri PCC BakkiSilicon:
,,Það er okkur mikil ánægja að halda áfram stuðningi við það öfluga og mikilvæga starf sem Völsungur sinnir. Það er sameiginleg ábyrgð okkar allra sem búum hér á svæðinu að styðja vel við félagið og starf þess. Samstarfið síðustu tvö ár hafa gengið virkilega vel og við höldum ótrauð áfram. Ég er sérstaklega ánægð með viðbótina í þessum samningi er varðar knattspyrnumót yngstu iðkenda Völsungs, sem mun nú bera heitið Völsungsmót PCC og fyrirtækið verður aðal styrktaraðili mótsins.“