Vinnustofa Abbýjar við Aðalgötu 13 á Siglufirði stendur alltaf fyrir sínu. Þar er gaman að kíkja inn og sjá nýjustu verk frá Abbý. Þar er yfirleitt opið um helgar og alltaf hægt að finna gjafavörur og listaverk á sanngjörnu verði. Arnfinna Björnsdóttir var Bæjarlistamaður Fjallabyggðar árið 2017. Klippimyndir Abbýar af stemningum frá síldarárunum eru vel þekktar og til sýnis á vinnustofunni.

Arnfinna Björnsdóttir er fædd á Siglufirði 1942. Þar hefur hún fengist við listir og handverk í 55 ár. Draumur hennar á yngri árum var að fara í listnám en veruleikinn leiddi hana í Verslunarskólann og í framhaldi af því í skrifstofuvinnu fyrir Siglufjarðarbæ í 35 ár. Í gegnum tíðina hefur Abbý sótt ýmis námskeið á sviði lista undir leiðsögn Örlygs Kristfinnssonar og Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur.