Vinna saman að eflingu sjúkraflutninga á starfssvæði HSN

Stjórn Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) og framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Norðurlands (HSN), hafa komist að sameiginlegri niðurstöðu um að þessir aðilar vinni saman að eflingu sjúkraflutninga á starfssvæði HSN með aukinni menntun og þjálfun sjúkraflutningamanna og þátttöku vettvangsliða í aðkomu að slysum og bráðum veikindum þar sem það á við. Þannig verði öryggi íbúa best tryggt.  HSN kynnti og útskýrði áform sín varðandi skipulag sjúkraflutninga á starfssvæði sínu og eru þau í fullu samræmi við skýrslur sem unnar hafa verið í málaflokknum á undanförnum árum og stefnu stjórnvalda.  Samstaða er um að verkefnið snúist um að auka þjónustu við landsmenn í sjúkraflutningum, með tilliti til viðbragðstíma og þekkingar og færni sjúkraflutningamanna. Lögð verði áhersla á að vinna verkefnið í sem bestri samvinnu við heimamenn þar sem grípa þarf til aðgerða til að uppfylla þessi markmið.

Þá beina aðilar því til heilbrigðisyfirvalda að skýra og tryggja lagaramma um vettvangsliða eins og bent hefur verið á í skýrslum þannig að þeir verði hluti heildarskipulags sjúkraflutninga í landinu og tryggingar þeirra, réttindi og skyldur ljósar.

Þetta kemur fram á vef HSN.is.