Vill láta byggja bryggju við Ólafsfjarðarvatn fyrir vatnasport

Helgi Jóhannsson íbúi í Fjallabyggð og nefndarmaður í skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur lagt til að gerð verði bryggja úr gömlum rafmagnsstaurum í Hornbrekkubót við Ólafsfjarðarvatn. Töluverð aukning hefur orðið á kayak eign íbúa Fjallabyggðar og löngu orðið tímabært að skapa betri aðstöðu við Ólafsfjarðarvatn til að stunda siglingar og vatnasport.

Bryggjan yrði byggð úr rafmagnsstraurum sem reknir eru niður og síðan yrði dekkið klætt. Nú þegar hafa straurar verið fengnir frá Landsneti úr Dalvíkurlínu, en þörf er á að fá fleiri straura.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur tekið jákvætt í hugmyndina frá Helga og hefur lagt til við bæjarráð Fjallabyggðar að verkefnið verði sett á fjárhagsáætlun 2021.

Skjáskot af umræddri frumteikningu frá Helga af bryggjunni.