Waldemar Preussner forstjóri þýska fyrirtækisins PCC og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri Norðurþings undirrituðu viljayfirlýsingu  um byggingu kísilmálmverksmiðju á Bakka við Húsavík í hádeginu þann 21. október.

Í frétt á fréttavef Morgunblaðsins segir Bergur Elías viljann til staðar en ekkert sé þó enn í hendi.

„Þetta mál er á ákveðnu byrjunarstigi en þessi viljayfirlýsing þýðir einfaldlega það að PCC og bæjarfélagið munu ráðast í ákveðna áreiðanleikakönnun um hvort hægt sé að byggja slíka verksmiðju á þessu svæði.” Fyrst og fremst sé verið að skoða hvort möguleikinn sé til staðar.

Bergur segir að sú vinna sem nú sé framundan setji kröfur á báða aðila. Gert er ráð fyrir að áreiðanleikakönnunin standi fram á vör, en viljayfirlýsingunni lýkur 31. júlí 2012. „Þá vonumst við til þess að vera komin með eitthvað til að byggja ákvarðanir á,” segir Bergur. Nauðsynlegt sé að stíga varlega til jarðar, „En að því sögðu þá er það þannig að þrátt fyrir þessa kröppu sem við höfum gengið í gegnum undanfarin ár þá munum við ekkert gefa okkur. Við munum halda áfram með uppbyggingu og reyna að skapa atvinnu hér á svæðinu.”

PCC er með höfuðstöðvar sínar í Duisburg í Þýskalandi en heldur úti starfsemi í 12 löndum.

Mbl.is greinir frá.