Átakshópur til varnar áframhaldandi landbroti á Siglunesi við Siglufjörð hefur sent erindi til Fjallabyggðar þar sem fram kemur nauðsyn þess að gerður verið varnargarður norðan nessins með stálþili og björgum úr nærliggjandi fjöllum.
Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur fundað um málið og tekur undir áhyggjur átakshópsins af landbroti á Siglunesi og þeim breytingum sem það gæti haft í för mér sér á sjólag og öldugang í Siglufirði. Einnig er tekið undir áhyggjur af þeim menningarverðmætum sem þar eru í hættu vegna landbrots.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar leggur til að sveitarfélagið, í samvinnu við landeigendur, sæki um framlag til sjóvarna vegna landbrots til Vegagerðarinnar. Þar sem Fjallabyggð er ekki landeigandi á Siglunesi er það álit nefndarinnar að ekki eigi að falla kostnaður á sveitarfélagið vegna framkvæmdarinnar.

Mest mæðir á norðvestur horni nessins. Þar virðist gróðurþekjan hafa hörfað um 21 metra frá 1950 til ársins 2000 og um 5-6 metra frá 2000 til 2009. Á norðurhlið nessins virðist gróðurþekjan
hafa hörfað um 10-11 metra frá 1950 til 2000 og svo um 2-3 metra frá 2000 til 2009. Þar sem nesið er mjóast er gróðurþekjan á algjöru undanhaldi.

Bréf hópsins til Fjallabyggðar.