Vilja stofna björgunarmiðstöð Landhelgisgæslu Íslands í Fjallabyggð

Allir fulltrúar bæjarráðs Fjallabyggðar samþykktu á fundi sínum í dag að fela bæjarstjóra að leita eftir viðræðum við dómsmálaráðherra og forstjóra Landhelgisgæslunnar um stofnun varanlegrar björgunarmiðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands í Fjallabyggð. Eftirfarandi texti hefur verið sendur til dómsmálaráðherra.

Á 696. fundi bæjarráðs Fjallabyggðar, þann 18. maí 2021, var tekin fyrir og samþykkt sameiginleg tillaga allra bæjarfulltrúa sem setu eiga í bæjarráði, um að bjóða Fjallabyggð fram sem mögulega staðsetningu fyrir norður-slóðadeild/starfsstöð innan stjórnstöðvar Landhelgisgæslu Íslands (LHG). Stjórnstöð LHG er ábyrg fyrir skilvirkri skipulagningu leitar- og björgunarþjónustu fyrir sjófarendur, loftför og samhæfingu framkvæmdar leitar- og björgunaraðferða innan íslenska leitar og björgunarsvæðisins. Fram hefur komið í fjölmiðlum að flugskýli LHG á Reykjavíkurflugvelli rúmi ekki allar þyrlur, auk þeirrar flugvélar sem LHG hefur yfir að ráða, eftir að þriðja þyrlan bættist nýverið í flugflota LHG. Þá hefur enn fremur komið fram í fjölmiðlum að nokkur áherslumunur kunni að vera uppi um framtíðarskipulag flugvallarins í Reykjavík á milli LHG annars vegar og Reykjavíkurborgar hins vegar, sem hafi leitt til þess að vandkvæðum hefur verið bundið að fá leyfi til að byggja nauðsynlegt húsnæði undir framtíðarstaðsetningu þyrlusveitar LHG á flugvallarsvæðinu í Reykjavík. Um þennan mögulega ágreining LHG og Reykjavíkurborgar varðandi framtíðarskipulag flugvallarins, sem fjölmiðlar hafa greint frá, getur Fjallabyggð eðli málsins samkvæmt ekkert fjallað um. Á hinn bóginn vill Fjallabyggð vekja sérstaka athygli ráðherra á því að í þessari sérstæðu stöðu kunni að felast mikil tækifæri sem skynsamlegt væri að reyna að nýta, sbr. nánar hér að aftan.

Í meðfylgjandi tillögu bæjarráðs Fjallabyggðar kemur fram að sveitarfélagið Fjallabyggð er tilbúið til að koma að því, í samráði við ríki og LHG, að byggja upp starfsstöð innan LHG fyrir Norður- og Austurland, auk nauðsynlegs eftirlits með siglingum á hafsvæðinu fyrir norðan og austan landið og á norðurslóðum. Staðsetning Fjallabyggðar, nyrst á Íslandi, þar sem stutt er út á opið haf og upp á hálendið getur mögulega gefið LHG einstakt tækifæri til að bregðast við fyrr en ella í því skyni að sinna lögbundnum leitar og björgunarstörfum á þessum hluta landsins og á hafsvæðinu þar í kring. Fyrir utan þann augljósa kost fyrir slíka uppbyggingu sem felst í staðsetningu Fjallabyggðar, þá liggur fyrir að í sveitarfélaginu eru til staðar vannýtt mannvirki, þ.e. bæði hafnarmannvirki, flugvöllur flugstöð og flugskýli, sem myndu nýtast afar vel í þessu skyni ef ákvörðun yrði tekin um að stofna og halda úti sérstakri starfsstöð innan björgunar- og leitarþjónustu LHG, bæði hvað varðar aðstöðu fyrir varðskip og þyrlur.

Það er ekki aðeins að aðstæður í Fjallabyggð séu einstakar til að byggja upp þá starfsemi sem um ræðir því það skiptir einnig máli að Fjallabyggð hefur í gegnum tíðina einkum byggst upp vegna nálægðar við sjóinn og því sem hann hefur gefið. Af þeim sökum meðal annars er mikil virðing borin fyrir starfsemi LHG og því mikill skilningur á mikilvægi þeirra starfa sem LHG innir af hendi. Það er því mat bæjarráðs Fjallabyggðar að umhverfið í Fjallabyggð, og sú saga sem tilvist sveitarfélagsins grundvallast á, geri einnig að verkum að skynsamlegt er að byggja upp björgunarmiðstöð LHG í sveitarfélaginu þar sem umhverfi fyrir slíka starfsstöð væri einstakt.

Í þessu samhengi er einnig vert að nefna að nokkrir alþjóðasamningar hafa verið gerðir, þar sem Ísland á aðild, um málefni norðurslóða. Má þar nefna samning um leit og björgun, samning um viðbrögð við olíumengun og samning um vísindasamstarf á norðurslóðum. Allt eru þetta samningar sem kalla á tilteknar skuldbindingar af hálfu ríkisins. Staðsetning starfsstöðvar LHG í Fjallabyggð varðandi björgunar- og leitarstarf gæti því hæglega auðveldað til muna þátttöku Íslands í framkvæmd þessara samninga.

Auk þess sem að framan er getið þá liggur fyrir að sjálfbærni byggðarlaga á landsbyggðinni er forsenda þess að við getum boðið nauðsynlega þjónustu hringinn í kringum landið. Sú þjónusta er til að mynda grundvöllur þess að hægt sé að byggja upp og bjóða uppá móttöku ferðamanna á þann hátt sem nauðsynlegt er, en leiða má líkum að því að ferðaþjónusta verði á ný stærsta atvinnugrein þjóðarinnar þegar tekist hefur að ná tökum á heimsfaraldrinum Covid19. Starfsstöð á vegum LHG í Fjallabyggð félli vel að þessum sjónarmiðum. Einnig er ljóst að aukin skipaumferð norðan við landið, og fyrirsjáanleg enn meiri aukning, er þungt lóð á þá vogarskál að ákvörðun verði tekin um að staðsetja björgunarmiðstöð í Fjallabyggð.

Hvað sem öðru líður vill Fjallabyggð gjarnan fá að taka fullan þátt í því að byggja upp öfluga starfsstöð LHG í sveitarfélaginu sem gæti skilað því að stofnunin, auk íslenska ríkisins, væri enn betur en áður í stakk búin til að standa undir þeim skuldbindingum sem felast í gildandi lögum um Landhelgisgæslu Íslands og þeim alþjóðasamningum sem íslenska ríkið hefur gert varðandi málefni norðurslóða.

Bæjarráð Fjallabyggðar lýsir sig því hér með tilbúið til að koma að viðræðum við ríkið um að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin varðandi málefni LHG og verkefni hennar til framtíðar, auk þess sem það er mat bæjarráðs að mikil tækifæri felist í því fyrir sveitarfélagið og ríkið að stofna starfsstöð innan LHG, í Fjallabyggð, til að sinna þeim málefnum sem að framan eru nefnd.

 

Myndir: Jóhann K. Jóhannsson