Vilja láta kanna hraðakstur á Hvanneyrarbraut á Siglufirði

Íbúar sem búa við norðurhluta Hvanneyrarbrautar á Siglufirði hafa farið fram á við bæjaryfirvöld í Fjallabyggð og Vegagerðina að það verði látið athuga hraðakstur ökutækja í götunni og viðeigandi úrbætur verði gerðar.  Íbúarnir hafa afhent undirskriftalista til Fjallabyggðar með tæplega 40 undirskriftum þar sem þessi beiðni er lögð fram. Í erindinu kemur fram að sérstaklega er ekið hratt frá grindarhliði neðan við Strákagöng og á leið til Siglufjarðar og eins frá sundlauginni við Hvanneyrarbraut og út úr bænum í átt að Strákagöngum. Mörg börn búa við Hvanneyrarbraut og leika sér í grennd við götuna. Íbúar fara fram á þrengingar eða hraðamyndavélar á þessu svæði til að draga úr hraða ökutækja. Á svæðinu er nú þegar blikkandi skilti sem blikkar á bíla sem aka yfir hraðamörkum, en það virðist ekki duga til.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur fjallað um málið og hefur falið tæknideild Fjallabyggðar að fara í samstarf við Vegagerðina í að finna leið að úrbótum til að draga úr hraðakstri við Hvanneyrarbraut á Siglufirði.