Vilja lagfæringu á vatnsleka í Héðinsfjarðargöngum

Fljótlega eftir að Héðinsfjarðargöng voru opnuð árið 2010 fór að bera á vatnsleka í göngunum Ólafsfjarðarmegin, sem virðist koma upp í gegnum akbrautina. Þegar vorar eykst þessi leki til muna
og endar alltaf á því að akbrautin er rennandi blaut u.þ.b. 4-5 km inn í göngin. Þessi leki virðist vera á nokkrum stöðum sem berst svo inn eftir göngunum. Helgi Jóhannsson bar upp þetta erindi á síðasta fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Fjallabyggðar.

Það er ekki ásættanlegt að þeir sem eiga leið um göngin komi út úr þeim á haugdrullugum bílum.- Sagði Helgi í erindinu.

Helgi Jóhannsson aðalmaður í Bæjarstjórn Fjallabyggðar og fulltrúi H-listans hefur átt samtöl við bílstjóra sem fara daglega eða oft á viku um göngin, t.d. atvinnubílstjórar fólksflutninga- og vöruflutningabíla. Að þeirra sögn fer mikil vinna í að þrífa þessa stóru bíla eftir að hafa farið í gegnum göngin og eru menn ekki sáttir við stöðuna. Sama á við um íbúa sem vinna í Fjallabyggð en búa en keyra göngin daglega til vinnu.

Helgi Jóhannsson hefur átt samtöl við starfsmenn Vegagerðarinnar á Akureyri varðandi úrlausnir. Til dæmis hvort ekki megi gera tilraun að keyra blásarana til að minnka rakamyndun inn eftir göngunum en það hefur ekki borið
árangur, en það er talið kosta of mikið.

Það hlýtur að vera vilji hjá Vegagerðinni að þetta dýra mannvirki, sem greinilega var gallað þegar það var tekið í notkun, virki eins og vera ber. – Sagði Helgi í erindinu.

Skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar hefur lagt til að bæjarstjóri Fjallabyggðar verði falið að ræða við Vegagerðina um mögulegar lausnir á þessu lekavandamáli til frambúðar.