Vilja halda Strandmenningarhátíð á Siglufirði árið 2018

Örlygur Kristfinnsson fyrir hönd Síldarminjasafns Íslands hefur óskað er eftir stuðningi Fjallabyggðar til að hægt verði að halda norræna strandmenningarhátíð á Siglufirði árið 2018. Leggur hann til að Síldarminjasafnið og Fjallabyggð gangi til liðs við Vita- og strandmenningarfélagið sem hefur verið tengiliður Íslands við þessa hátíð sem haldin hefur verið til skiptis á Norðurlöndunum frá árinu 2011. Samstarfið myndi fyrst og fremst felast í samvinnu um skipulagningu og nokkurri kostnaðarhlutdeild. Fyrsta skrefið yrði að mynda samráðsvettvang fulltrúa þessara þriggja aðila.

Árið 2018 verða einnig 100 ár liðin síðan Siglufjörður öðlaðist kaupstaðarréttindi og 200 ár síðan hann varð löggiltur verslunarstaður. Endanleg ákvörðun er í höndum bæjarráðs Fjallabyggðar.

Strandmenningarhátíð var haldin á Húsavík árið 2011 undir nafninu Sail Húsavík.