Vilja efnið úr Vaðlaheiðargöngum í flughlað á Akureyri

Bæjarráð Akureyrarbæjar skorar á ríkisstjórn og Alþingi að leggja nú þegar fjármagn til þess að ljúka flutningi á efni sem til fellur úr Vaðlaheiðargöngum í flughlað við Akureyrarflugvöll. Efnið sem kemur úr göngunum er mjög hentugt sem burðarlag undir flughlað, auk þess sem það kostar ríkið ekkert annað en flutning á svæðið. Það er ljóst að ef þetta tækifæri verður ekki nýtt, mun kostnaður við flughlaðið aukast verulega, þar sem sækja verður efni um lengri veg og greiða fyrir. Það má því fullyrða að það sé í raun samfélagslega óábyrgt að bregðast ekki við nú þegar. Þetta er þeim mun alvarlegra þegar horft er til þess að ríkið í gegnum ISAVIA er að setja tugi milljarða í uppbyggingu á millilandaflugvöllinn á Miðnesheiði. Bent hefur verið á það í fjölmiðlum að stærra flughlað við Akureyrarflugvöll er öryggisatriði í ört vaxandi flugumferð til og við Ísland, þar sem Akureyrarflugvöllur er einn af þremur varaflugvöllum fyrir millilandaflug. Þá skiptir stækkun flughlaðsins miklu máli fyrir uppbyggingu á starfsemi sem tengist flugi til og frá Akureyri og er það ótæk staða að þessi starfsemi þurfi að flytja úr landi vegna aðstöðuleysis.

Að mati bæjarráðs Akureyrarbæjar verður ekki unað við að ekkert verði gert og vísar allri ábyrgð á hendur ríkisvaldinu ef ekki verður brugðist við nú þegar og fjármunir tryggðir til að flytja efnið úr göngunum í flughlaðið.

Þetta kemur fram í fundargerð þann 2. júní 2016.