Vilja að Fjallabyggð leggi meiri áherslu á hinsegin málefni

Þrjár konur í Fjallabyggð vilja að sveitarfélagið leggi meiri áherslu á hinsegin málefni í sveitarfélaginu. Þeim finnst vanta alla fræðslu þegar kemur að þessu málefni í Fjallabyggð og eru reiðubúnar að koma að þessari vinnu með bæjaryfirvöldum. Þær Birgitta Þorsteinsdóttir, Hólmfríður Ósk Norðfjörð og Sunna Björg Valsdóttir vilja auka hinsegin fræðslu í Fjallabyggð á öllum skólastigum og fyrir fullorðna. Þær vilja að Fjallabyggð verði sýnilegri út á við gagnvart hinsegin fólki og eru með hugmyndir um að sveitarfélagið eignist hinsegin fána til að flagga þegar við á og máli jafnvel gangbraut eða húsveggi í regnbogalitum til að undirstrika stuðning við hinsegin fólk. Þær vilja opna umræðuna um hinsegin málefni og hinsegin líf í Fjallabyggð. Þá telja þær mjög mikilvægt að hinsegin fólk finni fyrir stuðningi og fordómaleysi í litlu samfélagi eins og í Fjallabyggð. Birgitta og Hólmfríður voru fyrsta hinsegin parið sem gifti sig í Siglufjarðarkirkju í maí 2017.

Í samtali við Hólmfríði Ósk þá spurði Héðinsfjörður.is hvort þær hefðu hugmynd um hversu margir væri hinsegin í Fjallabyggð og hvort einhver samtök væru starfandi eins og Hinsegin Norðurland á Akureyri ?

“Það eru allavega tveir transstrákar hér í Fjallabyggð og margir tvíkynhneigðir og allnokkrar lesbíur. Nei það eru engin samtök fyrir hinsegin fólk í Fjallabyggð, sem er mjög skrýtið, þar sem að okkur finnst mikil þörf á því.  Mér finnst umræðan orðin þannig í dag að unglingsstelpur segjast vera tvíkynhneigðar þar sem að það skiptir ekki máli með kyn þegar kemur að því að vera ástfangin, en samt virðast margar þeirra vera mjög týndar þegar kemur að þessu eins og gengur og gerist þegar kemur að ástinni, en fjölmiðlar og aðrir eru duglegir að koma með greinar sem að fjalla um sambönd, en það er nánast alltaf milli konu og manns.  Miðað við allar þær spurningar sem að við fáum frá fullorðnum, börnum og unglingum að þá finnst okkur mikil þörf fyrir fræðslu og erum við meira en tilbúnar í það.” – Segir Hólmfríður Ósk Norðfjörð í samtali við vefinn.

Myndir: Úr einkasafni Hólmfríðar og Birgittu.
Myndir: Úr einkasafni Hólmfríðar og Birgittu.