Sævar Þór Fylkisson er tvítugur leikmaður Knattspyrnufélags Fjallabyggðar, hann var hjá okkur í viðtali eftir að Íslandsmótinu lauk. Sævar Þór fékk stórt hlutverk með liðinu í ár og lék 22 leiki í deildar- og bikarkeppni og skoraði tvö mörk. Sævar kom frá Þór á Akureyri fyrir þremur árum, en hann lék upp yngri flokkana með liðinu á Akureyri. Sævar lék sinn fyrsta leik fyrir KF aðeins 17 ára með meistaraflokki, og á 18. ári 15 leiki í deild og bikar og hefur bætt sig mikið á milli leiktíða. Hann hefur núna leikið 50 leiki fyrir KF í deild- og bikarkeppni auk 24 leikja í deildarbikarkeppni og Norðurlandsmótinu. Sævar Þór vinnur á leikskóla meðfram knattspyrnunni og býr á Akureyri. Hann keyrir því til Fjallabyggðar á allar æfingar með KF. Sævar er nýbúinn að framlengja samning við KF til næstu tveggja ára, og er framtíðin björt hjá þessum unga leikmanni. Önnur viðtöl við leikmenn KF má lesa hér vefnum.
Viðtal – Sævar Þór Fylkisson leikmaður KF
Hvert var markmið liðsins og áherslur þjálfarans fyrir Íslandsmótið eftir að hafa unnið sæti í 2. deildinni í ár? Markmið liðsins var klárlega að halda sér uppi í 2. deild og við fórum létt með það. Áherslur þjálfarans voru að ná í sem flest stig á heimavelli, en síðan var bara að taka einn leik í einu og einbeita sér að honum.
KF missti nokkra öfluga leikmenn fyrir mótið og fékk nokkra erlenda leikmenn á móti í bland við yngri leikmenn. Var ekki talsverð óvissa með hversu sterkt liðið yrði í sumar? Í byrjun var smá óvissa eftir að hafa misst mjög sterka leikmenn, en það er alltaf mjög góður mórall í liðinu sem hjálpaði vissulega til að koma hópnum svona vel og fljótlega saman í byrjun tímabils.
Þú ert einn af yngri leikmönnum liðsins sem fengu stórt hlutverk í sumar, ertu sáttur með þitt framlag í sumar í deild og bikar og mörkin tvö? Ég er ágætlega sáttur með framlagið mitt í sumar en auðvitað vill maður alltaf gera betur og bæta sig. Þetta tímabil hefur verið mitt besta hingað til og ég mun klárlega koma sterkari inn í það næsta.
Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik? Fyrsta markið mitt fyrir KF var vissulega eftirminnilegt, og sama með heimaleikinn gegn sterku liði Selfoss sem fór upp um deild, en við unnum 2-1 eftir að boltinn lak inn á 93. mínútu, það var ekkert eðlilega fyndið.
KF fékk á sig tæplega 2 mörk í leik í deildinni í sumar, eða 39 mörk í 20 leikjum, hefði eitthvað mátt betur fara í vörninni, markvörslu eða þéttleika liðsins, eða er þetta ásættanlegt fyrir nýliða í deildinni? Það er alltaf hægt að gera betur hvort sem það er í vörn eða sókn en annars erum við bara mjög sáttir með útkomuna í sumar.
Niðurstaðan í ár var langt og skrýtið mót og KF endaði í 6. sæti, eru leikmenn ekki sáttir með tímabilið í heild sem nýliðar, sem hægt er að byggja ofan á fyrir næsta tímabil? Við erum við mjög sáttir með 6. sætið og hefðum í raun getað gert betur en það á ýmsum tímapunktum en annars er mjög sterkt að enda í efri hluta sem nýliðar.
Nýju erlendu leikmennirnir áttu mjög gott fyrsta tímabil og sáu um markaskorun liðsins. Var ekki mikill fengur fyrir KF að fá Oumar og Sachem í vor? Jú mjög mikill fengur að fá þá. Erlendu leikmennirnir spila alltaf stórt hlutverk í liðinu og stóðu þeir sig mjög vel í sumar.
Getur þú nefnt 2-3 leikmenn sem voru liðinu mikilvægir í sumar? Ljubomir átti sitt besta tímabil og var mjög góður, Hrannar var líka geggjaður áður en hann fór út í skóla og síðan kom Sindri gríðarlega sterkur inn í mikilvægt hlutverk eftir að Dóri brotnaði.