Viðtal – Sævar Gylfason hjá KF

Varnarmaðurinn Sævar Gylfason er á sínu öðru tímabili hjá KF, en hann hefur leikið 35 leiki með meistaraflokki og skorað 5 mörk. Í sumar lék hann 18 leiki og skoraði eitt mark fyrir KF, en sumarið 2019 lék hann 15 leiki í deild- og bikarkeppni og skoraði 3 mörk. Hann er einn af þessum ungu leikmönnum sem hefur verið að fá tækifæri í aðalliðinu og er vaxandi leikmaður fyrir KF. Sævar hefur verið heitur fyrir framan markið í deildarbikarnum síðustu árin, leikið 5 leiki og skorað 5 mörk. Hann lék upp yngri flokkana með KA á Akureyri en skipti yfir til KF árið 2019 og leikur í treyju númer 8. Sævar starfar sem kúabóndi Eyjafirði, nánar tiltekið í Svalbarðsstrandarhreppi, hann keyrir því til Ólafsfjarðar á allar æfingar. Fleiri viðtöl má lesa hér á vefnum.

Viðtal – Sævar Gylfason hjá KF

Hvert var markmið liðsins og áherslur þjálfarans fyrir Íslandsmótið eftir að hafa unnið sæti í 2. deildinni í ár?

Eins og við vitum var KF spáð 12. og neðsta sæti fyrir tímabilið. Allir í kringum félagið höfðu þó meiri trú á liðinu. Markmiðið okkar fyrir sumarið var að gera heimavöllinn að vígi og mæta óhræddir til leiks gegn öllum liðum deildarinnar.

KF missti nokkra öfluga leikmenn fyrir mótið og fékk nokkra erlenda leikmenn á móti í bland við yngri leikmenn. Var ekki talsverð óvissa með hversu sterkt liðið yrði í sumar?

Jú klárlega. Við misstum algjöra lykilmenn frá því í fyrra í Alexander Má og Jordan Damachoa ásamt fleirum. Það þurfti því að fylla upp í hópinn sem mér fannst heppnast mjög vel en ég hefði þó viljað að liðið yrði klárt fyrir fyrsta leik.

Ertu sáttur með þitt framlag í sumar, með 20 leiki og 2 mörk í deild- og bikar?

Ég er nokkuð sáttur með mitt framlag í sumar. Það tók mig svolítinn tíma að komast almennilega af stað og fékk ég minni spiltíma fyrrihluta sumars, enda gríðarleg samkeppni um stöður í varnarlínunni. Ég komst í betri takt seinni hluta sumars og spilaði flesta leiki og fannst mér ég standa mig vel. Ég þekki samt nokkra sem hefðu viljað sjá fleiri mörk frá mér en það bíður bara betri tíma. 

Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Allir þrír leikirnir gegn Dalvík/Reyni (1 í bikar og 2 í deild) voru mjög skemmtilegir, enda unnum við þá alla nokkuð öruggt. Það eru samt alltaf gefins 6 stig gegn þeim á hverju sumri og því fúlt að sjá þá falla niður í 3.deild. Ég verð líka að nefna annað markið gegn Völsungi úti en það mark var það skrautlegasta sem ég hef séð á mínum ferli.

KF fékk á sig tæplega 2 mörk í leik í deildinni í sumar, eða 39 mörk í 20 leikjum, hefði eitthvað mátt betur fara í vörninni eða þéttleika liðsins, eða er þetta ásættanlegt fyrir nýliða í deildinni?

Það er erfitt að sætta sig við að fá næstum því 2 mörk á sig í leik en eins og ég nefndi hér fyrir ofan þá mættum við óhræddir í alla leiki og fengum því of mörg mörk á okkur en skoruðum einnig mörg mörk. Deildin í ár var gríðarlega sterk og margir leikmenn með reynslu úr efri deildum en það verður klárlega markmið fyrir næstu leiktíð að bæta varnarleikinn og fækka mörkum sem við fáum á okkur.

Niðurstaðan í ár langt og skrýtið mót og KF endaði í 6. sæti, eru leikmenn ekki sáttir með tímabilið í heild sem nýliðar, sem hægt er að byggja ofan á fyrir næsta tímabil?

Ég held að allir séu mjög sáttir með að hafa endað í 6. sæti þótt að á tímapunkti í sumar hefðum við getað blandað okkur í toppinn en eftir allt góð niðurstaða.

Nýju erlendu leikmennirnir áttu mjög gott fyrsta tímabil og sáu um markaskorun liðsins. Var ekki mikill fengur fyrir KF að fá Oumar og Sachem í vor?

KF þarf oftar en ekki að treysta á útlendinga og völdu virkilega góða útlendinga í sumar. Oumar og Sachem voru til fyrirmyndar innanvallar sem utan og komu með mikil gæði inn í liðið sem gerði öllum gott.

Stundar þú nám eða atvinnu með knattspyrnunni?

Ég er kúabóndi.

Engin lýsing til