Bakvörðurinn og bakarinn Hákon Leó Hilmarsson leikmaður Knattspyrnufélags Fjallabyggðar var í viðtali hjá okkur skömmu eftir að Íslandsmótinu lauk. Hákon starfar hjá hinu frábæra Aðalbakarí á Siglufirði sem bakari og spilar svo með KF og æfir á fullum krafti í frístundum. Hákon er 23 ára og spilar sem bakvörður fyrir KF. Hann lék 13 leiki í deild- og bikarkeppni í sumar, en var meiddur stærstan hluta sumars eftir meiðsli í upphafi leiktíðar. Hákon kom svo sterkur inn í liðið eftir meiðslin. Hákon hefur verið fastamaður í liðinu síðan 2016 og er einn af uppöldu leikmönnum liðsins sem mynda sterkan kjarna. Hákon hefur leikið 136 leiki í öllum keppnum, deild, bikar, deildarbikar og Kjarnafæðismótinu með KF. Hákon hefur nýverið skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KF. Fleiri viðtöl við leikmenn KF má lesa hér á vefnum.

Viðtal – Hákon Leó Hilmarsson hjá KF

Hvert var markmið liðsins og áherslur þjálfarans fyrir Íslandsmótið eftir að hafa unnið sæti í 2. deildinni í ár?

Markmiðið var nokkuð skýrt fyrir mót. Sem nýliðar var markmiðið að halda sér í deildinni og stabílisera okkur sem lið í 2.deild. Við byrjuðum brösulega en þegar fór að líða á tímabilið vorum við komnir langt frá liðum í neðri hluta og þá var bara að líta upp á töfluna og taka einn leik í einu.

KF missti nokkra öfluga leikmenn fyrir mótið og fékk nokkra erlenda leikmenn á móti í bland við yngri leikmenn. Var ekki talsverð óvissa með hversu sterkt liðið yrði í sumar?

Við komum inní mótið sem fallbyssufóður fyrir önnur lið, það er engin spurning. Vissulega misstum við leikmenn eins og svo oft áður, en það kemur alltaf maður í manns stað og við náðum að styrkja okkur vel með erlendum og íslenskum leikmönnum. Í mínum huga erum við með sterkann kjarna og eigum við ekkert að vanmeta okkur sem lið.

Þú varst meiddur í upphafi móts og kemur inn um miðjan júlí. Hvaða meiðsli voru hjá þér, og hvernig gekk þér að komast inn í byrjunarliðið?

Ég meiddist illa í bikarleik gegn Magna i byrjun sumars. Ég tognaði á liðböndum í hægra hné. Bataferlið gekk hægt og rólega að mínu mati og hefði ég viljað fara fyrr af stað en Milo þjálfari veit hvað hann syngur og sagði mér að vera þolinmóður. Ég hélt mér í góðu formi og með viljann og þolinmæði að hendi þá komst ég aftur inn í liðið hægt og rólega.

Var einhver leikur í sumar sem þér fannst vera eftirminnilegur, eða eitthvað atvik í leik?

Bikarleikurinn gegn Magna var rosalegur. Hann bauð uppá allt, Mörk, rauð spjöld, framlengingu og vítaspyrnukeppni. Vissulega endaði hann ekki skemmtilega og ég spilaði alla framlenginguna meiddur. En þessi leikur sýndi karakterinn sem er í liðinu að mæta liði í deild fyrir ofan og ekki bera neina virðingu fyrir þeim. Við sáum þarna að við ættum ekki að hræðast nein lið í okkar deild.

 KF fékk á sig tæplega 2 mörk í leik í deildinni í sumar, eða 39 mörk í 20 leikjum, hefði eitthvað mátt betur fara í vörninni, markvörslu eða þéttleika liðsins, eða er þetta ásættanlegt fyrir nýliða í deildinni?

Við höfum nú verið oftast þekktir í 3.deildinni að vara mjög varnarsinnaðir og halda markinu okkar hreinu. Klárlega þurfum við að bæta okkur í varnarleiknum. En þegar litið er á töfluna erum við í 5. sæti yfir lið sem hefur fengið á sig flest mörk og við endum um miðja deild svo það er nokkuð eðlileg staða.

Niðurstaðan í ár langt og skrýtið mót og KF endaði í 6. sæti, eru leikmenn ekki sáttir með tímabilið í heild sem nýliðar, sem hægt er að byggja ofan á fyrir næsta tímabil?

Ég held að allir geti verið sammála um það að 6. sæti er mjög góður árangur í sögulegu samhengi fyrir KF. Við getum bara verið bjartsýnir fyrir komandi tímabil.

Nýju erlendu leikmennirnir áttu mjög gott fyrsta tímabil og sáu um markaskorun liðsins. Var ekki mikill fengur fyrir KF að fá Oumar og Sachem í vor?

Oumar og Sachem voru frábær viðbót við liðið. Það er ekki fyrir alla að koma til Fjallabyggðar og búa og spila fótbolta. Erlendir leikmenn sem koma eiga að spila stórt hlutverk hjá okkur sem þeir sannarlega gerðu. Þeir voru mjög „Professional“ og var frábært að kynnast þeim sem einstaklingum og spila með þeim fótbolta.

Hafði það áhrif á ykkur þá leiki sem engir áhorfendur voru leyfðir í sumar?

Það er alltaf gott að spila með stuðningsmenn í stúkunni og saknaði maður þess í nokkrum leikjum. Það gefur mér alltaf auka „Boozt“ að heyra í fólki fagna og æsa sig í leikjum.

Getur þú nefnt 2-3 leikmenn sem voru liðinu mikilvægir í sumar?

Oumar var gjörsamlega frábær og að mínu mati topp 3 besti leikmaðurinn í þessari deild. Heimamaðurinn Ljuba(Ljubomir Delic) átti klárlega sitt besta tímabil og það er algjör unun að spila með honum þegar hann er uppá sitt besta. Bjarki (Baldursson) kom eins og stormsveipur inn í liðið þegar líða fór á sumarið og leysti hægri bakvarðarstöðuna virkilega vel í sumar.