Videoval á Siglufirði ein af síðustu leigunum

Videoval á Siglufirði er gamalt og gróið fyrirtæki sem hefur haft nokkra eigendur í gegnum tíðina. Fyrirtækið hefur verið í nokkrum húsnæðum á Siglufirði en er í dag Suðurgötu 6 skammt frá Ráðhústorginu. Videoleigum á Íslandi hefur fækkað hratt síðasta áratuginn og er Videoval ein af síðustu leigunum á landinu.  Mæðgurnar Sigrún Björnsdóttir og Svala Júlía Ólafsdóttir sem reka leiguna segja í samtali við Ruv.is þetta vera sorglega og öfuga þróun og vísa í stemninguna sem fylgir því að fara á leiguna, stemningu sem ekki er hægt að upplifa með því að hala myndinni niður af netinu eða sækja hana í gegnum myndlykil. Sigrún rak áður fataverslun í húsnæðinu áður en hún keypti Videoval.
Það er bara rúmlega ár síðan þær mæðgur hættu að panta inn nýjar myndir, en það stóð ekki lengur undir kostnaði.  Í dag halda þær rekstrinum gangandi með því að selja allt frá dýrafóðri til leikfanga en mesta aðdráttaraflið hefur nammibarinn.  Fólk leigir ennþá myndir í Videoval þrátt fyrir að úrvalið endurnýjist ekki, en mest er að gera á sumrin þegar sumarhúsaeigendur eru í bænum.

,,Það er alltaf einn og einn sem kemur og tekur, eins og sjómenn sem lenda hérna inni í brælu og komast ekki á sjó, þeir koma og taka myndir til að stytta sér stundirnar,” segir Svala.

Heimild: ruv.is – Birt með leyfi.