Hátíðleg athöfn verður í Menntaskólanum á Tröllaskaga á föstudaginn næstkomandi þegar tekin verður formlega í notkun ný viðbygging skólans. Framkvæmdir hafa staðið í eitt ár og eru iðnaðar- og verkamenn að leggja síðustu hönd á fráganginn. Aðstaða nemenda mun batna mjög með tilkomu stækkunarinnar. Þar verður mötuneyti og ýmis aðstaða fyrir félagslíf nemenda og sýningar. Það var Illugi Gunnarsson sem tók fyrstu skóflustunguna að viðbyggingunni þann 2. september 2016. Viðbyggingin er ríflega 200 fermetrar og hljóðaði kostnaðaráætlun uppá  93.519.264 kr., en lægsta tilboðið sem barst var 110.811.800 kr. frá B.B. Byggingum ehf. frá Akureyri.  Héðinsfjörður.is skoðaði framkvæmdir í sumar og var þá verkið langt komið.

Dagskrá:

  1. Gunnar Ingi Birgisson bæjarstjóri Fjallabyggðar býður gesti velkomna.
  2. Ávarp: Steinunn María Sveinsdóttir formaður Bæjarráðs Fjallabyggðar.
  3. Ávarp: Lára Stefánsdóttir skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga.
  4. Ávarp: Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra.
  5. Formleg opnun nýbyggingar: Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra og Kristinn G. Jóhannsson listmálari og fyrrverandi skólastjóri Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar.