Blakfélag Fjallabyggðar (BF) hefur gengið frá ráðningu á Raul Rocha og Önnu María Björnsdóttur fyrir veturinn. Raul, sem er 34 ára Spánverji, mun þjálfa meistaraflokka félagsins ásamt byrjendablakið. Raul og Anna María munu svo í sameiningu sjá um barna- og unglingastarf félagsins.
Stjórn Blakfélags Fjallabyggðar gerir ráð fyrir að starfsemi félagsins muni aukast enn meira á komandi vetri eftir vel heppnað fyrsta starfsár, bæði síðastliðin vetur og í strandblakinu í sumar.
Vetrarstarfið hófst í vikunni þegar yfir 20 krakkar úr 1.-4.bekk mættu á sína fyrstu blakæfingu og í næstu viku mun starfið hjá eldri krökkunum hefjast. Fullorðinsblakið einnig á fullt í næstu viku en félagið verður með þrjú lið á Íslandsmótinu (1. deild karla, 2. deild kvenna og 3. deild kvenna). Á þriðjudaginn í næstu viku hefst svo byrjendablakið. Áætlað er að á annað hundrað iðkendur munu æfa hjá félaginu í vetur.