Það var svona tiltölulega rólegt hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra um helgina en þó voru samt nokkur verkefni sem komu á borð lögreglu og leysa þurfti.
Sex voru kærðir vegna umferðarlagabrota um helgina, þar af tveir vegna vímuaksturs.
Erilinn var meiri á aðfararnótt föstudagsins og voru allnokkur afskipti af skemmtanalífinu í miðbæ Akureyrar. Var aðili ölvaður og til vandræða og með almenn leiðindi við gangandi vegfarendur og hafði haft í hótunum við ungmenni og sagður hafa beitt ofbeldi í miðbæ Akureyrar. Leystist málið án þess að aðilinn væri handtekinn að þessu sinni en tilkynning um atvikið var send barnaverndaryfirvöldum.
Aðstoð var veitt á gistiheimili á Akureyri vegna kvartana um hávaða og ónæði. Leystist það á staðnum.
Eins og komið hefur fram í fréttum var vatnstjón á Síldarminjasafninu á Siglufirði en lögregla fór á staðinn og ritaði skýrslu um atvikið.
Hávaðakvörtun barst frá húsi í miðbæ Akureyrar og leystist það á staðnum eftir viðræður við fólk sem tilkynnt var með hávaða.