Verkefni á Norðurlandi valin á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands

Nokkur verkefni á Norðurlandi hafa verið valin á dagskrá aldar afmælis fullveldis Íslands. Kallað var eftir hugmyndum af verkefnum og hafa nú 100 verkefni verið valin og hljóta þau mismunandi styrki fyrir verkefnum.

Á Siglufirði hlaut Vitafélagið vilyrði fyrir 1 milljón króna vegna Norrænar strandmenningarhátíð á Siglufirði 2018.  Hátíðin er haldin í tilefni af 100 ára afmæli Siglufjarðarkaupstaðar, 200 ára verslunarsögu og aldarafmæli
sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Markmið hátíðarinnar er að vekja athygli á strandmenningu þjóðarinnar sem einum merkasta hornsteini í menningararfi hennar og sögu. Þetta er gert með því að gefa sérfræðingum og
almenningi tækifæri á að hittast, læra, miðla og skapa tengsl. Markmiðið er einnig að styðja strandmenninguna og kynna hana fyrir almenningi.

Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði hefur hlotið vilyrði fyrir 400 þús. króna styrk vegna verkefnis Þjóðlagaarfur Íslendinga í nýjum búningi. Taka á upp í hljóð og mynd flutning á 20 íslenskum þjóðlögum úr Þjóðlagasafni Bjarna Þorsteinssonar sem kom út árið 1906. Þjóðlögin verða í nýjum búningi. Þau verða útsett á einfaldan hátt fyrir söng og hljóðfæraleik til þess að gera þau aðgengilegri almenningi. Leikið verður á hljóðfæri sem voru til á Íslandi fyrr á öldum. Flytjendur eru Spilmenn Ríkínís. Þeir syngja lögin og leika undir. Lögin verða sýnd á sérstakri sýningu í Þjóðlagasetrinu á Siglufirði í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands. Þá munu Spilmenn Ríkínís flytja lögin á opnunartónleikum Þjóðlagahátíðarinnar á Siglufirði.

Skagfirski kammerkórinn hlaut vilyrði fyrir 900 þús. króna styrk vegna tónleikanna Í takt við tímann.  Skagfirski kammerkórinn ræðst í stórverkefni í tilefni afmælisársins en það er verkið Magnificat eftir breska
tónskáldið John Rutter. Það má segja að það sýni þróunina í verkefnavali almennra kóra á 100 árum og hvað Íslendingar eru að fást við í dag, á 100 ára afmæli fullveldisins. Hinn hluti tónleikanna er helgaður íslenska
einsöngslaginu en það hefur lifað með þjóðinni í 100 ár. Í þeim hluta er ætlunin að gera íslenska einsöngslaginu hærra undir höfði með nýjum hljómsveitarútsetningum. Valin verða einsöngslög ólíkra höfunda með áherslu á
skagfirska arfinn. Haldnir verða þrennir tónleikar í þrem landshlutum.

Akureyrarbær hefur fengið vilyrði fyrir 800 þús. króna styrk vegna Fullveldisvorhátíðar í Sundlaug Akureyrar.  Hugmyndin með verkefninu er að setja hugtakið fullveldi og hugmyndina um fullvalda lýðveldi í ýmiss konar
búning sem hentar öllum aldri og setja saman dagskrá sem er á sama tíma fræðandi, spennandi og skemmtileg, að fjalla um og nálgast fullveldishugtakið á víðum grunni með það að markmiði að það kveiki áhuga hjá öllum
aldurshópum og að þátttakan verði almenn. Vettvangurinn er Sundlaug Akureyrar sem er afar fjölsóttur samkomustaður og eru gestirnir bæði íbúar og ferðamenn. Markmiðið með að nýta Sundlaug Akureyrar sem
viðburðastað er að ná til þátttakenda sem ekki myndu endilega mæta á venjulegt málþing um efnið. Rými sundlaugarinnar sem eru fjölmörg og mismunandi verða notuð til viðburðahalds en jafnframt verður þess gætt
að þeir geti líka notið sem ekki vilja fara í sund.

Listasafnið á Akureyri hefur fengið vilyrði fyrir 800 þús. króna styrk  vegna sýningar Fullveldið í dag.  Setja á upp sýningu á verkum 10 ólíkra myndlistarmanna sem gerð eru sérstaklega í tilefni af 100 ára afmæli
fullveldis Íslands árið 2018. Sýningin er útisýning sett upp á stöndum á völdum stöðum sem mynda gönguleið frá gömlu höfninni í miðbæ Akureyrar (Torfunefsbryggju) að menningarhúsinu Hofi, í gegnum miðbæinn, upp Listagilið hjá Listasafninu, upp að Sundlaug Akureyrar og að verkinu Landnemum eftir Jónas S. Jakobsson af Þórunni hyrnu og Helga magra landnámsmönnum sem stendur á Hamarkotsklöppum. Markmiðið er að skapa nýja sýn á stöðu fullveldis Íslands í dag, á 100 ára afmæli þess, séð með augum ólíkra myndlistarmanna, gera sýningu sem fær almenning til að velta fyrir sér ólíkum sjónarhornum á fullveldið í dag og skoða hugmyndir og útfærslur.
Textar um sýninguna verða á íslensku og ensku og aðgengilegir hjá hverju verki í almenningsrými en einnig á netinu.

Guðmundur Ragnarsson f.h. áhugahóps um sögu Dana á Sauðárkróki í upphafi 20. aldar hefur fengið vilyrði fyrir styrk að upphæð 800 þús krónur vegna verkefnis Danirnir á Króknum – Um þátttöku Dana í bæjarlífi Sauðárkróks í upphafi 20. aldar.  Fyrirhugað er að fagna 100 ára fullveldi Íslands með því að setja upp sýningu í tali og tónum þann 1. desember 2018. Sýningunni er ætlað að gera sögu Dana á Sauðárkróki í lok 19. aldar og upphafi þeirrar 20. nokkur skil með jákvæðum og skemmtilegum hætti. Gert er ráð fyrir tveimur sýningum á Sauðárkróki. Sýningin samanstendur af lestri texta um Danina okkar og veru þeirra hér og á milli upplesinna texta og leikinna atriða verður flutt dönsk og íslensk tónlist þar sem leitast er við að fanga tíðarandann í upphafi 20. aldarinnar. Um er að ræða samstarfsverkefni þar sem koma saman nokkur félagasamtök og stofnanir í Skagafirði og standa að viðburðinum.

Háskólinn á Hólum í Hjaltadal hefur fengið vilyrði fyrir 600 þús. króna styrk vegna verkefnis Áhrif skólahalds á Hólum í Hjaltadal.  Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á hlutverk og áhrif skólahalds á Hólum á þróun íslensks samfélags frá fullveldi til framtíðar. Sérstaklega verður horft til áhrifa Hólamanna á umhverfi sitt með hliðsjón af sjálfstæði, byggðaþróun, menntunarstigi og tækniframförum. Haldin verður tveggja daga ráðstefnu að Hólum í Hjaltadal. Ráðstefnan verður öllum opin og munu fræðimenn og fyrrverandi nemendur skólans halda erindi um hugðarefni sín sem tengjast yfirskriftum málstofa en þær eru sjálfstæði, byggðaþróun, menntun og tækniframfarir.

Sögusetur íslenska hestsins hefur hlotið vilyrði fyrir 500 þús. króna styrk vegna verkefnins Íslenski hesturinn – þjóðarhesturinn – efling og uppgangur við fullveldi.  Sögusetur íslenska hestsins hyggstsetja upp sýningu um íslenska hestinn og hestamennsku, stöðu hestamennsku um fullveldið og framfarasókn á fullveldistímanum. Í sýningunni kristallast hvernig frjáls og fullvalda þjóð hefur tryggt vöxt og viðgang síns þjóðarhests og komið honum á framfæri við heimsbyggðina og skapað honum þar, í samstarfi við aðrar þjóðir þar sem áhugi hefur verið til staðar, viðgang og virðingu. Sýningin verður fyrst sett upp á Landsmóti hestamanna 2018 en síða varanlega í Skagafirði.

Fleiri félög hafa hlotið styrki á Norðurlandi, eins og Kammerkór Norðurlands, Mótorhjólasafn Íslands, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Amtsbókasafnið á Akureyri, Minjaasfnið á Akureyri og Varmahlíðarskóli.