Verður Íþróttamiðstöðin á Hóli seld?

Logos lögmannsþjónusta hefur spurst fyrir um möguleg kaup á íþróttamiðstöðinni að Hóli á Siglufirði en fjallað hefur verið um erindið í bæjarráði Fjallabyggðar.  Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar á eftir að taka afstöðu í málinu en ekki hefur verið ákveðið hvort húsnæðið sé til sölu né hver framtíðaráform þess séu. UÍF hefur staðið fyrir endurbótum á tengigangi hússins sem varð eldi að bráð, og sendi út nokkrar styrktar beiðnir sem var öllum hafnað.

Hóll er 400 fermetrar að stærð og  tveggja hæða íbúðarhús með stórri verönd og náttúru allt um kring. Á efri hæð er gistiaðstaða fyrir 30 manns í kojum auk lítillar setustofu og salernis. Svefnherbergin eru sjö sem skiptast í tvö sex manna herbergi, þrjú fjögurra manna herbergi og tvö þriggja manna herbergi.

Ársþing Ungmenna- og íþróttasamband Fjallabyggðar var  haldið 13. maí síðastliðinn, en á heimasíðu félagsins má sjá ársskýrslu og reikninga.

holl_web

Mynd frá heimasíðu uif.is