Stjórn RARIK ákvað á fundi sínum þann 14. október sl. breytingar á verðskrá hitaveitna RARIK sem munu taka gildi 1. desember 2022. Taxtar jarðvarmaveitna hækka í samræmi við hækkun vísitölu á þessu ári sem áætlað er að nemi tæpum 10% frá síðust breytingu. Verðskránni var síðast breytt þann 1. október 2021 um 5% að undanskilinni hitaveitu Siglufjarðar. Til að milda áhrif verðlags á viðskiptavini er áætlað er að hækkunin verði tekin í tveimur skrefum, það fyrra nú þann 1. desember.

Hækkunin að þessu sinni nemur 7,5% hjá þremur hitaveitum RARIK (í Dalabyggð, á Blönduósi/Skagaströnd og á Seyðisfirði) en 7% hjá hitaveitunni á Höfn. Ekki er hækkunarþörf á Siglufirði vegna góðrar afkomu veitunnar þar.

Tengigjöld hækka um 7,5%, svo og gjald fyrir lokun hitaveitu þar sem grafa þarf niður á lögn, en önnur þjónustugjöld hækka í samræmi við hækkun þjónustugjalda í verðskrá RARIK fyrir dreifingu, sem tók gildi þann 1. október sl.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur yfirfarið og staðfest ofangreindar breytingar.

Verðskránna má sjá hér.