Akureyrarvaka var formlega sett í Lystigarðinum á Akureyri í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Heimir Örn Árnason, setti hátíðina, minnti á mikilvægi þess að fólk haldi vel hvert utan um annað, og bað gesti að lúta höfði í þögn og hugsa hlýtt til þeirra sem nú eiga um sárt að binda í nágrannabænum Blönduósi.

Síðan rak hvert atriðið annað í dagskrá kvöldsins fram undir miðnætti. Klukkan 22 hófst Draugaslóð í Innbænum og hefur sá viðburður líklega aldrei verið eins vel sóttur en lögreglan telur að þar hafi verið á annað þúsund manns. Á sama tíma hélt Högni Egilsson magnaða tónleika í Menningarhúsinu Hofi og myndlistarsýningar voru opnaðar um allan bæ. Að sögn lögreglu fór allt vel fram.

Dagskrá Akureyrarvöku í dag og á morgun er að finna á Akureyrarvaka.is.

Texti: Aðsend fréttatilkynning Myndir: Andrés Rein Baldursson