Vel heppnaðir Íslenskir sumarleikar á Akureyri

Íslensku sumarleikarnir fóru í fyrsta skipti fram á Akureyri um verslunarmannahelgina og tóku við af fjölskylduhátíðinni Ein með öllu. Hátíðin tókst með mikilli prýði þó gestir hefðu mátt vera fleiri en langtíma veðurspá var hátíðinni ekki í vil. Það rættist þó svo um munaði úr veðrinu og sólin lét sjá sig. Meðal viðburða sem fram fóru voru tónleikar í Skátagilinu, skemmtifjallaskokk á Hömrum, þríþraut við Hrafnagil, Pabbar og pönnsur og Kirkjutröppu Town Hill þar sem keppnisfólk í fjallahjólreiðamennsku sýndi listir sínar. Fjölsóttur markaður var haldinn á Ráðhústorgi og á Glerártorgi fór fram hæfileikakeppni fyrir ungt fólk. Íslensku sumarleikarnir enduðu svo í blíðviðri á Sparitónleikum á Samkomuhúsflötinni á sunnudagskvöld og voru þeir vel sóttir. Fram kom úrval tónlistarfólks og að lokum var glæsileg flugeldasýningu og bátar á Pollinum kveiktu á neyðarblysum svo að hann glóði í rauðum bjarma. Hátíðin fór að öllu leyti vel fram og gestir Sumarleikanna voru til fyrirmyndar. Myndir og texti koma frá Akureyri.is.