Veitingahúsið Allinn til sölu á Siglufirði
Veitinga- og samkomuhúsið við Aðalgötu 30 á Siglufirði er nú til sölumeðferðar. Húsið er frá árinu 1924 og hefur veitinga- og sportbarinn Allinn verið starfræktur þar síðustu árin. Áður var Nýja bíó í húsinu, en það var eitt elsta kvikmyndahús landsins. Fyrsta kvikmyndasýningin var 25. júlí árið 1924 og var þá húsfyllir, eða 355 manns. Húsið byggði Hinrik Thorarensen og rak hann Nýja bíó í áratugi og tóku synir hans við til ársins 1982, en þá keypti Steingrímur Kristinsson húsið og rekstur og rak til ársins 1992, en þá tók Valbjörn sonur hans við rekstrinum en árið 1999 var síðasta kvikmyndasýngin í húsinu. Eftir það hafa ýmsir aðilar átt húsið og reksturinn.
Húsið hefur í áranna rás hýst ýmis konar starfsemi. Þar hefur verið rekið kvikmyndahús, sælgætis- og íssala, dansleikjahald, skóverslun, fataverslun og lyfsala. Þarna var um tíma til húsa umboð Tóbaksverslunar ríkisins. Þarna hefur einnig verið reknir veitingastaðir, haldnar leiksýningar, troðið upp með tónleika og haldnir fundir.
Arion banki er núna þinglýstur eigandi hússins og er ásett verð 45 milljónir. Brunamótamat er 166 milljónir rúmar. Húsið er rúmlega 700 fermetrar á tveimur hæðum.
Nánari lýsing:
Í vesturhluta hússins á jarðhæð er veitingasalur fyrir um 35 manns. Þar beint fyrir ofan er einnig veitingasalur með bar. Á efri hæð er einnig annar salur eða stórt herbergi auk salerna, starfsmannarýma og geymslna. Í næsta bili austan við veitingastaðinn er pláss nýtt sem geymslur og lager í dag. Þar svo austan við er inngangur í samkomuhúsið sem áður var kvikmyndasalur. Fyrst er þar komið að fatahengi, ræstikompu og salernum og þar inn af er um að ræða rúmgóðan sal með mikilli lofthæð, sviði, bar og svölum sem samtals tekur um 150 manns. Undir sviðinu er léleg geymsla sem telur um 93 m² af heildarstærð hússins, og þar eru ummerki um raka. Í þessum hluta eru jafnframt salerni og fatahengi. Útgangur er úr salnum út í port til austurs. Eldhús er inn af veitingastaðnum á jarðhæðinni og lítill eldhúskrókur inn af sal efri hæðar.
Húsið virðist í nokkuð góðu ástandi frá götunni séð og er vel staðsett við torgið í miðbæ Siglufjarðar. Bakatil eru hins vegar áberandi múrskemmdir á húsinu og fyrirliggjandi framkvæmdir.
Heimildir: Timarit.is, vefir Steingríms Kristins.