Veitingageirinn.is tók út Kaffi Rauðku

Vefurinn Veitingageirinn.is tók út Veitingahúsið Hannes Boy á Siglufirði í sumar, en núna hafa þeir skrifað veitingarýni fyrir Kaffi Rauðku einnig og birt á vef sínum. Þar var t.d. plokkfiskurinn sagður “hreinn draumur” og mjög góðar útfærslur af síldarréttum sem í boði var, en ísinn með eftirrétti sagður bragðlaus og óspennandi.

Í fréttinni kemur fram að þeir hafi verið staddir á Siglufirði í sumar yfir síldarhátíðina og hafi mætt í hádeginu á Kaffi Rauðku til að smakka þar á síldarhlaðborði.

Það sem þeir pöntuðu var:  Síldarsalat Hannes Boy, karrýsíld, rússnensk síld, hvítlaukssíld, sinnepssíld, marineruð síld, krydd síld, plokkfiskur, harðsoðin egg, soðnar kartöflur, heimagert rúgbrauð og smjör.

Umsögn Veitingageirans.is: “Þetta voru allt mjög góðar útfærslur, ekki of sykraðar eins og oft er, rúgbrauðið alveg svakalega gott og plokkarinn hreinn draumur.”

Í eftirrétt var pantað: Belgísk vaffla með vanilluís og rjóma.

Umsögn Veitingageirans.is: “Í eftirrétt fengum við okkur Belgíska vöfflu með vanilluís og rjóma. Allt mjög gott utan þess að ísinn var bragðlaus og óspennandi”.

Þá hrósuðu þeir eigandanum, Róberti Guðfinnssyni fyrir að tala við viðskiptavini og hreinsa af borðum ef þess þurfti.

Síldarhlaðborð Rauðku Belgísk vaffla

Myndir: veitingageirinn.is