Veglegir menningarstyrkir til Fjallabyggðar

Þann 1. febrúar síðastliðinn, úthlutaði Uppbyggingarsjóður Norðurlands eystra 100 milljónum króna til menningar, atvinnuþróunar og nýsköpunar á starfssvæði Eyþings.  Uppbyggingarsjóði bárust samtals 133 umsóknir, þar af 51 til atvinnuþróunar og nýsköpunar og 82 til menningar.  Uppbyggingarsjóður samþykkti að veita 85 verkefnum styrkvilyrði að upphæð 100 m.kr. Samtals var sótt um rúmlega 271 mkr.

Í Fjallabyggð hlutu eftirfarandi styrk: Alþýðuhúsið á Siglufirði hlaut 2 milljónir fyrir menningarstarf í húsinu.  Félag um Þjóðlagasetur hlaut 2 milljónir í rekstrarstyrk. Fjallasalir ses hlaut 5 milljónir í styrk fyrir Ólafsfjarðarstofu. Síldarminjasafnið hlaut 1,5 milljónir fyrir Norræna strandmenningarhátíð 2018. Félag um Ljóðasetur Íslands hlaut 1 milljón króna í rekstrarstyrk.

Sjóðurinn er samkeppnissjóður og veitir verkefnastyrki til menningarverkefna, atvinnuþróunar og nýsköpunar auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála.  Hann er hluti af samningi milli Eyþings og ríkisins um Sóknaráætlun Norðurlands eystra 2015-2019. Þetta er fjórða árið sem sjóðurinn starfar, og var nú í fyrsta sinn notast við rafræna umsóknargátt.

Allan listann má sjá á vef Eyþings.