Vatn flæddi inn á nokkrum stöðum í Fjallabyggð

Töluvert annríki var hjá Slökkviliði Fjallabyggðar og Björgunarsveitinni Strákum á Siglufirði í gærdag og fram eftir kvöldi vegna vatnsleka á Siglufirði. Mikill vatnselgur myndaðist í bænum eftir lægðina sem gekk yfir í morgun og hlýindin sem urðu eftir hádegi.
Dæla þurfti vatni á tveimur stöðum á Siglufirði og þá aðstoðuðu slökkviliðsmenn og björgunarsveitarfólk húsráðendur á nokkrum stöðum þar sem vatn var tekið að flæða inn. Aðgerðir hófust um klukkan 16 og stóðu til að ganga 22. Aðgerðir gengu vel.
Slökkvilið Fjallabyggðar greindi fyrst frá þessu á samfélagsmiðlum.
Myndir: Slökkvilið Fjallabyggðar