Varðandi samgöngur í Fjallabyggð – Hanna svarar Kristjáni Möller

Undirrituð vil árétta eftir að vangaveltur komu upp um greinaskrif sem birt voru sl. laugardag. Flestir sem hafa velt fyrir sér og talað fyrir bættum samgöngumálum í Fjallabyggð vita vel að undirbúningsvinna að jarðgangagerð milli Siglufjarðar og Fljóta er þegar hafin og fyrir liggur úttekt á svæðinu. Það er bráðnauðsynlegt að koma þeirri framkvæmd á samgönguáætlun þar sem ekki er boðlegt að búa við þær aðstæður sem við búum við í dag. Það er löngu vitað mál að Siglufjarðarvegur um Almenninga er ekkert framtíðarvegstæði og var það mat úttektaraðila Vegagerðarinnar árið 1982 og hefur verið allar götur síðan. Samgöngubætur og hugsanleg ný jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur er málefni sem við verðum einnig að koma áfram í umræðunni og fá úttekt á svæðinu sem allra fyrst. Því öll þekkjum við þær aðstæður sem myndast í Múlanum yfir vetrartímann og það að göngin eru mikill flöskuháls á umferðartíma allt árið. Ég vísa hér í textann sem fór misvel ofan í samborgara mína og olli einhverjum misskilningi eða mögulega er verið að reyna að búa til ágreining um málefni sem við öll ættum að vera sammála um.

Áætlanir um jarðgangagerð Áratugir án samgöngubóta í Fjallabyggð eru ekki í boði. Það skiptir miklu að ríkisvaldið sé þannig í sveit sett að hægt sé að vinna í tvennum jarðgangaframkvæmdum á hverjum tíma. Annað er óskynsamlegt. Það verður að flýta bráðnauðsynlegum samgönguverkefnum við utanverðan Eyjafjörð. Strákagöng og Skriðurnar standast ekki nútímakröfur. Um það eru fagmenn sem og leikmenn sammála. Þessar ófærur kalla á ný göng milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, enda þekkja allir að Múlagöng eru barn síns tíma.

Jafnframt skal tekið fram og hafa verður í huga að við búum í sameinuðu sveitarfélagi þar sem samgöngur um Ólafsfjarðarmúla eru ekki tryggar né öruggar og helst það oftar en ekki í hendur að lokun á Siglufjarðarvegi þýðir lokun eða óvissustig í Ólafsfjarðarmúla. Þar sem sérfræðiþjónusta og Fjórðungssjúkrahús okkar, sem búum hér í Fjallabyggð, er staðsett á Akureyri er það einnig lykil atriði að tryggja okkur öruggar samgöngur og greiðan aðgang inn Eyjafjörðinn. Samgöngubótum verður að flýta í Fjallabyggð.

Hanna Sigríður Ásgeirsdóttir

 

Grein KLM er hér.