Varðandi breytingar að hefja akstur með yngstu börnin frá Ólafsfirði til Siglufjarðar og óvissa með miðstig

Íbúar í Fjallabyggð halda áfram að berjast gegn breyttri fræðslustefnu sem Fjallabyggð hefur boðað fyrir Grunnskóla Fjallabyggðar. Rúmlega 38% af kjörstofni í Fjallabyggð mótmæla nýrri fræðslustefnu. Héðinsfjörður.is var beðinn um að birta þetta bréf sem sent var til ráðamanna.

Eftirfarandi bréf frá Sigríði V. Vigfúsdóttur hefur verið sent til barnaverndar, umboðsmanna barna, mennta- og menningarmálaráðherra, skólastjóra Grunnskóla Fjallabyggðar, Bæjarstjóra Fjallabyggðar, talsmann barna á Alþingi og aðalmenn Bæjarstjórnar Fjallabyggðar.

Efni: Varðandi breytingar að hefja akstur með yngstu börnin frá Ólafsfirði til Siglufjarðar og óvissa með miðstig

Fjallabyggð ber samkvæmt sveitastjórnarlögum að láta atkvæðagreiðslu vegna fræðslustefnu Fjallabyggðar fara fram innan eins árs frá því óskað var eftir að hún færi fram. Fjallabyggð hefur móttekið undirskriftalista þar sem  samkv. Þjóðskrá 38,1% af kjörstofni mótmæla nýrri Fræðslustefnu Fjallabyggðar. Alls söfnuðust 612 undirskriftir í Fjallabyggð. Þrátt fyrir niðurstöður um lögbundnar kosningar hyggst sveitarfélagið knýja fram breytingarnar þó að auglóst sé að þær muni ekki halda þegar kosið verður um málið.

Ég spyr hvort skólinn hafi fengið utanaðkomandi sérfræðiálit hjá aðilum með sérþekkingu á velferð barna og á því hvaða afleiðingar það getur haft á börn að keyra þessar breytingar í gegn, nánast með vissu um að breyta verður aftur að ári liðnu þegar kosningar um málið hafa farið fram?

Í Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna kveður 3. grein á um það sem barninu er fyrir bestu og þar  segir:

“Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu.”

Geta þeir aðilar hér í Fjallabyggð sem starfa að hagsmunum barna hunsað þá staðreynd að það getur ekki verið gott fyrir börnin að fara út í svo umfangsmiklar breytingar á skólagöngu sem einungis munu taka gildi í mánuði eða mesta lagi einn skólavetur?

Á vef umboðsmanns barna segir:  “Eins og allir vita eru börn ekki þrýstihópur í stjórnmálalegu tilliti og sú staðreynd liggur fyrir að sjónarmið þeirra gleymast oft og tíðum í heimi hinna fullorðnu þótt það sé auðvitað ekki algilt”

Hvernig má það vera að þeir aðilar sem starfa að hagsumunum barna í Fjallabyggð hafa virt sjónarmið barna að vettugi?

Það vekur óhug og undrun mína og hundruð annara íbúa í Fjallabyggð að þeir aðilar og fagaðilar sem ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að velferð og líðan barna í sveitarfélaginu ætli að taka þátt í þessari framkvæmd sem hefur þegar myndað sár sem ekki sér fyrir endan á að grói á meðan börn eru hér höfð að pólitísku bitbeini. Þetta mál snýst eingöngu um börn og aftur börn en ekki búfénað! Það hefur gleymst í þessu máli að það eru börnin sjálf sem skipta mestu máli.

Ég bið um svör við spurningunni um hver axli ábyrgð á því ef þessar breytingar fram og til baka hafi vondar afleiðingar, þó ekki sé nema fyrir eitt barn sem illa þolir breytingar?

Þess má að lokum geta að skv. upplýsingum Samgöngustofu eru enn ekki gerðar sömu öryggiskröfur fyrir ung börn í rútubílum og einkabílum. Hefur það mál verið skoðað sérstaklega?

 

Afrit af pósti þessum fá eftirfarandi:

 

  • Hjörtur Hjartarson – barnavernd
  • Salvör Nordal – umboðsmaður barna
  • Kristján Þór Júlíusson – mennta- og menningarmálaráðherra
  • Jónína Magnúsdóttir – skólastjóri
  • Gunnar Birgisson – bæjarstjóri
  • Bjarkey Olsen – talsmaður barna á Alþingi
  • Bæjarstjórn- aðalmenn

Með kærri kveðju,
Sigríður V. Vigfúsdóttir