Vaglaskógur opnar 1. júní

Enn má finna snjóskafla í Vaglaskógi eftir vorhretið í liðinni viku, en gera má ráð fyrir að hlýindin nú í vikunni fari langt með að bræða þá. Vaglaskógur verður opnaður fyrir umferð í næstu viku, föstudaginn 1. júní.  Gróska er enn ekki mikil í skóginum enda lætur norðlenska birkið ekki plata sig og fer ekki af stað fyrr en nokkur vissa er fyrir því að komið sé sumar.

Sigurður Skúlason skógarvörður segir í nógu að snúast við að undirbúa komu fyrstu gestanna, en m.a. á að bæta þjónustu við ferðafólk með því að auka við svæði sem bjóða upp á rafmagn.  „Sem þykir nú nauðsynlegt í útilegum nútímafólks,“ segir Sigurður.  Í sumar verður þannig boðið upp á rafmagnstengingar í Stóra-rjóðri til viðbótar þeim tjaldsvæðum í Vaglaskógi sem þegar hafa rafmagn. „Þetta kostar vissulega dálitla peninga og þeir eru hér eins og víða af skornum skammti, en einhvern veginn bjargast þetta,“ segir hann.

Sigurður á von á góðu ferðasumri og gerir ráð fyrir að ferðafólk flykkist í Vaglaskóg, enda síðastliðið sumar með eindæmum lélegt. Um 7.300 gistinætur voru skráðar á liðnu sumri, en þær hafa að jafnaði verið á bilinu 12 til 15 þúsund undanfarin ár. Sérlega kaldur og blautur júnímánuður er fyrst og fremst skýringin á fækkun gistinótta og þá nefnir skógarvörður að oft hafi rignt á föstudögum síðasta sumar sem dró úr ferðagleðinni og fólk mætti því ekki fyrr en sól fór að skína daginn eftir, „og því gisti fólk bara eina nótt yfir helgi í stað tveggja.“

Sigurður gerir ráð fyrir að umferð um Vaglaskóg aukist verulega með tilkomu Vaðlaheiðaganga.  „Við gerum ráð fyrir að umferð aukist mjög eftir að þau komast í gagnið, einkum af fólki í dagsferðum, sem lítur við í skóginum, fer í gönguferðir, borðar nestið sitt eða kaupir veitingar,“ segir Sigurður. Hann segir að áætlað sé að einungis einn fjórði af þeim sem koma í Vaglaskóg gisti í skóginum, hinir séu í stuttri heimsókn.

Heimild: Vikudagur.is