Búið er að ráðstafa 700 þúsund rúmmetrum af efni sem til falla þegar grafið verður fyrir Vaðlaheiðargöngum. Efnið fer m.a. í nýtt flughlað á Akureyrarflugvelli þótt engum fjármunum hafi verið veitt í það verk eins og staðan er í dag. Efnisflutningarnir kosta um 200 milljónir króna og ætlar Vaðlaheiðargangafélagið að lána Isavia þangað til fást fjárveitingar á samgönguáætlun.
Vaðlaheiðargöng verða tæplega 7,2 kílómetra löng og 9,5 metra breið þannig að mikið efni verður grafið út úr Vaðlaheiðinni við gerð ganganna.
Byrjað verður á göngunum Eyjafjarðarmegin og þar verða grafnir út um 500 þúsund rúmmetrar, en um 200 þúsund Fnjóskadalsmegin. Í Fnjóskadal verður lagður um 3 kílómetra vegkafli, en 1200 metra kafli Eyjafjarðarmegin. Þar verður auk þess gert hringtorg. Þá verður Drottningarbrautin á Akureyri breikkuð og gerður göngu- og hjólreiðastígur þar með sjónum.
Heimild: ruv.is