Úrslitakeppni í blaki haldin í Fjallabyggð – Umfjöllun í boði Torgsins

Torgið, veitingahús á Siglufirði er aðalstyrktaraðili umfjallanna um Blakfélag Fjallabyggðar í vetur í 1. deild karla og 2. deild kvenna.  Það eru hjónin Daníel Pétur Baldursson matreiðslumaður og Auður Ösp Hlíðdal Magnúsdóttir sem standa að baki veitingastaðnum Torginu á Siglufirði. Torgið er lítill, notalegur og fjölskylduvænn veitingastaður í hjarta Siglufjarðar. 

Umfjöllun

Úrslitakeppni í neðri deildum kvenna fer fram í Fjallabyggð um helgina. Í gær, laugardag keppti kvennalið BF í 2. deild kvenna þrjá leiki. Liðið hefur verið í toppbaráttunni í deildinni og leikið vel.

Fyrsti leikurinn var gegn HK-H, en leikið er upp á tvær unnar hrinur. Sara Sagarra Navas er spilandi þjálfari liðsins en hún þjálfar einnig meistaraflokk karla í BF. Leikurinn byrjaði jafnt og var staðan 6-6 en BF komst þá í gírinn og náðu góðu forskoti í stöðunni 8-17. HK klóraði aðeins í bakkann og minnkaði muninn í 16-22 en BF stelpurnar kláruðu hrinuna 21-25 og voru komnar í 0-1. Í annarri hrinu komst BF fljótt yfir og var staðan 4-12 og 5-15. Þá kom góður kafli hjá BF og breytti þær stöðunni í 8-22. BF vann hrinuna örugglega 14-25 og unnu leikinn 0-2.

Í hádeginu lék BF við Ými-B og fór leikurinn í þrjár hrinur. Ýmir byrjaði ágætlega og komst í 4-1 en þá tók BF við sér og svaraði 4-7 og 6-11. Ýmir jafnaði 13-13 en BF var sterkari og komst í 14-18. BF komst þá í 17-21 og í millitíðinni tók Ýmir tvö leikhlé. BF kláraði hrinuna 19-25 og voru komnar í 0-1. Ýmir byrjaði þá aðra hrinu sterkt og tóku forystu 6-2 og 13-4 og tóku BF stelpurnar hlé í millitíðinni. Ýmir komst þá í 16-8 og 20-11 og lítið gekk upp hjá BF á þessum kafla. Mikil spenna kom þó í lok hrinunnar þegar BF minnkaði muninn í 23-22 og 24-23. En það var Ýmir sem átti síðasta stigið og vann 25-23 og jöfnuðu leikinn 1-1. Það þyrfti því oddahrinu til að skera úr um sigurvegara í leiknum og var hún jöfn framan af þar til BF tókst að slíta sig frá Ými. Staðan var 6-6 en þá gerði BF 4 stig og komust í 6-10 og 7-12.  Ýmir minnkaði muninn í 10-14 en BF kláraði hrinuna 10-15 og unnu leikinn 1-2.

Síðasti leikur BF í 3. deild kvenna í gær var gegn Blakfélagið Hafnarfjarðar, BFH. Stelpurnar úr Hafnarfirði byrjuðu ágætlega og komust í 6-2 en BF jafnaði 8-8. BF komst þá í gang og náðu forskoti í stöðunni 14-19 en BFH minnkaði muninn í 17-20. BF tók síðustu 5 stigin og unnu hrinuna 17-25 og voru komnar í 0-1. BF byrjaði aðra hrinu mjög vel og komust í 0-6 en þá tók þjálfari BFH leikhlé. BF var með mun sterkara lið og komust í 6-13 og 9-16.  BFH minnkaði muninn í 14-22 og 16-24 en BF kláraði hrinuna auðveldlega 19-25 og unnu þægilegan sigur, 0-2.

BF stelpurnar í 2. deild unnu því alla þrjá leiki sína í gær.

BF Súlur léku í 3. deild kvenna í þessari úrslitakeppni og léku þær þrjá leiki. BF Súlur unnu HK-C 0-2 í fyrsta leik. Þær léku við Bresa í öðrum leik en töpuðum honum 2-0. Þriðji leikurinn var við Hrunamenn og var hann jafn og spennandi en BF Súlur unnu leikinn í oddahrinu 1-2. BF Súlur leika einnig tvo leiki í dag.