Úrslit í paramóti Seguls 67 í strandblaki

Paramót Seguls 67 fór fram í blíðskapar veðri fimmtudaginn 13. júlí á Strandblaksvellinum við Rauðku á Siglufirði. Sex pör mættu til leiks og spiluðu allir við alla. Fjölmargir leikir voru jafnir og skemmtilegir. Þegar öllum leikjum var lokið voru þrjú pör jöfn að stigum en öll unnu þau fjóra leiki en töpuðu einum. Reikna þurfti stigaskorið í innbyrðisleikjunum og voru það Anna María og Óskar sem báru sigur af hólmi með +2 stig í innbyrðisuppgjörunum. Sladjana og Ketill sem komu alla leið frá Húsavík lentu í öðru sæti með +1 stig og Kristinn Reimars og Íris í því þriðja með -3 stig.
Segull 67 var styrktaraðili mótsins og fengu pörin í þremur efstu sætunum veglega vinninga frá fyrirtækinu og vill strandblaksnefnd BF koma fram þakklæti til fyrirtækisins.
Stefnt er að því að hafa Skemmtimót fyrir krakka og unglinga í komandi viku en næsta fullorðinsmót verður á Trilludögunum þegar strandblaksmót Sigló Hótels fer fram.