Laugardaginn 8. desember næstkomandi, klukkan 14:00, verða úrslit kynnt í ljósmyndakeppninni Fugl fyrir milljón 2012, í húsakynnum Rauðku á Siglufirði í Fjallabyggð. Þrír ljósmyndarar munu hljóta viðurkenningar fyrir myndir sínar.

Keppnin snýst um bestu fuglamyndina tekna á Tröllaskaganum, Hrísey, Grímsey, Drangey og Málmey á tímabilinu 14. maí til 31. ágúst, 2012. Auk viðurkenninga fyrir myndirnar í 2. og 3. sæti, verður besta myndin verðlaunuð með 1.000.000 króna í reiðufé.

Dómnefnd er leidd af Jóhanni Óla Hilmarssyni, fuglafræðingi og einum þekktasta fuglaljósmyndara Íslands.Með honum sátu í nefndinni Daniel Bergmann, ljósmyndari og Örlygur Kristfinnsson myndlistarmaður og forstöðumaður Síldarminjasafnsins á Siglufirði.

Keppnin var nú haldin í annað sinn og er tilgangur hennar að kynna Tröllaskagann og nærliggjandi eyjar fyrir náttúruunnendum og stuðla að aukinni fuglaskoðun og fuglaljósmyndun á svæðinu.

Það eru Brimnes hótel í Ólafsfirði og Rauðka á Siglufirði sem standa að keppninni.

Með bestu kveðju,

Axel Pétur Ásgeirsson

www.fuglfyrirmilljon.com