Úrslit í ljóðasamkeppni í Fjallabyggð

Í haust fór fram hin árlega ljóðasamkeppni milli nemenda í 8.-10. bekk í Grunnskóla Fjallabyggðar. Þessi viðburður hefur verið fastur liður í ljóðahátíðinni Haustglæður undanfarin áratug. Hefur sá háttur verið hafður á að nemendur hafa notað málverk og ljósmyndir sem kveikjur að ljóðum. Að þessu sinni heimsóttu nemendur Menntaskólann á Tröllaskaga og ortu út frá listaverkum í sal skólans.

Alls urðu til rúmlega 70 ljóð og var það í höndum 5 manna dómnefndar að skera úr um hvaða ljóð sköruðu fram úr. Meðlimir dómnefndarinnar voru frá Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði og mátti hver og einn tilnefna 5 ljóð án samráðs við aðra í dómnefndinni. Dómararnir voru ótrúlega sammála því aðeins fengu 9 ljóð atkvæði og þar af þrjú þeirra fullt hús.

Í morgun var komið að verðlaunaafhendingu og fór hún fram í Grunnskóla Fjallabyggðar í Ólafsfirði. Eftirtaldir hlutu verðlaun fyrir ljóð sín: Nadía Sól Huldudóttir og Aliki Mavreli úr 8. bekk, Viljar Þór Halldórsson 9. bekk og Christina Silvía Cretu úr 10. bekk. Það var Þórarinn Hannesson, forstöðumaður Ljóðaseturs Íslands sem tilkynnti úrslitin og afhenti verðlaunin.

Ljóðin má lesa á vef Grunnskóla Fjallabyggðar.

Texti: Haustglæður – Facebook.