Kvennamót Golfklúbbs Fjallabyggðar var haldið í gær á Skeggjabrekkuvelli í Ólafsfirði. Keppt var í punktakeppni með forgjöf og í tveimur flokkum, 0-28 í forgjöf og 28,1 og hærri. Alls voru 23 konur skráðar til leiks á þessu árlega móti. Eftir mótið var svo kaffihlaðborð.
Veitt voru verðlaun fyrir flesta punkta í þremur verðlaunasætum í hvorum flokki. Einnig voru veitt verðlaun fyrir lengsta teighögg og næst holu í báðum flokkum.
í 1. flokki vann Ása Guðrún Sverrisdóttir með 33 punkta, en hún er skráð með 26,7 í forgjöf. Fast á eftir fylgdi Dagný Finnsdóttir með 32 punkta, en hún er skráð með 11,8 í forgjöf. Guðrún S. Steinsdóttir var í 3. sæti með 31 punkt.
Í hærri forgjafar flokknum var líka mjög jöfn keppni. Erla Gunnlaugsdóttir var í 1. sæti með 33 punkta. Í 2. sæti var Anna María Björnsdóttir með 32 punkta og Guðrún Unnsteinsdóttir var í 3. sæti með 32 punkta.