Úrslit í golfmóti Kaffi Klöru

Þrátt fyrir mikla vindaspá í gær þá var veður mun betra en spár sögðu til í Ólafsfirði. Það voru 34 kylfingar sem voru mættir á Skeggjabrekkuvöll í Ólafsfirði til að taka þátt í golfmóti Kaffi Klöru, en þar var spilað eftir texas scramble aðferðinni.  Alls voru því 17 lið sem tóku þátt og kláruðu keppni. Leiknar voru 9 holur og munaði aðeins nokkrum höggum á fyrstu þremur sætunum.

Sigurvegari mótsins var lið Hamarsmanna með 28 högg en þeir koma frá Golfklúbbi Hamars á Dalvík. Í öðru sæti var lið Guðrúnar og Daníels með 30 högg en þau spiluðu fyrir Kaffi Klöru og eru nýliðar með 54 í forgjöf. Í þriðja sæti var lið JÁ með 32 högg, en það eru félagar í GFB.

Kylfingar fengu sér svo súpu og brauð á Kaffi Klöru eftir mótið og voru veglegir bikarar afhentir.

Myndir með fréttinni tók Guðmundur Ingi Bjarnason, tjaldvörður og nýliði í golfi.