Úr mínum höndum opnuð í Bergi

Myndlistamaðurinn Jónína Björg Helgadóttir hefur opnað sýninguna Úr mínum höndum í Menningarhúsinu Bergi á Dalvík.  Sýningin er opin frá 3. nóvember til 28. nóvember en formleg opnun verður laugardaginn 11. nóvember frá kl. 13-16. Þangað eru allir velkomnir og léttar veitingar verða í boði.

Jónína Björg útskrifaðist úr Myndlistaskólanum á Akureyri 2015, og er þetta hennar fjórða einkasýning síðan. Hún hefur tekið þátt í fjölda samsýninga, unnið sem verkefnastjóri og er partur af listahóp sem bæði sýnir saman og rekur lista- og menningarrýmið Kaktus á Akureyri.

Verk hennar eru að megninu til málverk og grafíkverk, sem oft eiga uppruna sinn í draumum og draumkenndri hugsun. Þau eiga það til að vera feminísk og sjálfsævisöguleg.

Menningarhúsið Berg er við Goðabraut, Dalvík og er opið mánudaga til föstudaga kl. 10-17 og laugardaga 13-17.