Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi

Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi var haldin fimmtudaginn 23. október síðastliðinn. Í ár var hátíðin haldin í Austur-Húnavatnssýslu og tóku heimamenn vel á móti gestunum sem voru yfir 100 ferðaþjónustuaðilar frá öllu Norðurlandi.

Markaðsstofa Norðurlands veitti viðurkenningar fyrir Sprota ársins, fyrirtæki ársins og mann ársins.

Viðurkenningu fyrir Sprota ársins fékk Spákonuhof.  Menningarfélagið Spákonuarfur á Skagaströnd opnaði Spákonuhof sitt þann 30. júní 2011. Spákonuhofið er liður í sögu og menningartengdri ferðaþjónustu þar sem efniviðurinn er sóttur í söguna og er þar unnið með Þórdísi spákonu, fyrsta nafngreinda íbúa Skagastrandar, sem uppi var á seinni hluta 10. aldar. Sproti ársins er veittur eftirtektarverðri nýjung á Norðurlandi.

Viðurkenningu sem fyrirtæki ársins fékk Bílaleiga Akureyrar – Höldur, en þessi viðurkenning er veitt til fyrirtækis sem hefur skapað sér stöðu á markaði og hefur unnið að stöðugri uppbyggingu, vöruþróun og nýsköpun. Bílaleiga Akureyrar – Höldur ehf. er stærsta bílaleiga landsins með um 3.000 bíla í rekstri.  Starfsmannafjöldi fyrirtækisins er í dag um 160 og nálægt 200 á háannatíma í ferðaþjónustu. Fyrirtækið fangaði 40 ára starfsafmæli á árinu en rætur þess má rekja aftur til ársins 1966.

Guðmundur Karl Jónsson forstöðumaður í Hlíðarfjalli hlaut viðurkenningu fyrir ötul störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Guðmundur Karl tók við stöðu forstöðumanns Hlíðarfjalls árið 2000 og hefur unnið að krafti að því að byggja upp Hlíðarfjall sem vinsælasta skíðasvæði landsins. Síðustu misseri hefur Guðmundur unnið að markaðssetningu á svæðinu fyrir erlenda ferðamenn í samstarfi við önnur skíðasvæði á Norðurlandi og hefur sú vinna þegar komið Norðurlandi á kortið erlendis og skapað sérstöðu fyrir svæðið.

ferdathjonusta-vidurkenningar-2014

 

 

 

 

 

 

 

 

Heimild: akureyri.is