Upplýsingamiðstöð Fjallabyggðar opin allt árið?

Fram kemur í fundargerð Bæjarráðs Fjallabyggðar að óskað sé eftir því að ráða áfram starfsmann Upplýsingamiðstöðvar Ferðamála í vetur með stuðningi Fjallabyggðar og hagsmunaaðila.

Í sumar hafa verið starfræktar upplýsingamiðstöðvar ferðamála í Fjallabyggð. Fjöldi gesta hefur verið yfir 2000 og hefur ríkt mikil ánægja með þessa starfsemi bæði af heimamönnum og gestum.
Ráðning upplýsingafulltrúa rennur út 31. ágúst og að óbreyttu mun upplýsingamiðstöðin þá verða lokað. Það er mat forstöðumanns bóka- og héraðsskjalasafnsins að veruleg þörf sé á upplýsingamiðstöð ferðamála og að hún sé starfrækt allt árið um kring.
Kallar hún eftir skírari stefnu í þessum málaflokki frá bæjaryfirvöldum Fjallabyggðar enda hafi bæjarfélagið komist á kortið sem ferðamannastaður með tilkomu Héðinsfjarðarganga. Óskað er eftir því að halda stöðinni opinni í vetur.

Bæjarráð Fjallabyggðar vísar málinu til fagnefndar og felur forstöðumanni bóka- og héraðsskjalasafnsins sem og fræðslu- og menningarfulltrúa að boða hagsmunaaðila til fundar um þessi mál hið fyrsta til að kanna vilja þeirra til aðkomu að stöðu upplýsingafulltrúa- og ferðamálafulltrúa á vegum bæjarfélagsins, eða með stuðningi bæjarfélagsins með launagreiðslum sem nemi framlagi í fjóra mánuði á ári í 100% starfi gegn framlagi hagsmunaaðila.
Þetta verði viðmiðun bæjarfélagsins og framlag út kjörtímabilið.

Bæjarráð samþykkti samhljóða þessa nálgun og telur brýnt að niðurstaða fagráðs og starfsmanna liggi fyrir við gerð næstu fjárhagsáætlunar.