Unnið gegn rakaskemmdum í Brekkuskóla á Akureyri

Úttekt vegna hugsanlegra rakaskemmda í Brekkuskóla á Akureyri sem gerð var í vor, sýnir skemmdir á afmörkuðum svæðum. Að mati sérfræðinga Mannvits eiga skemmdirnar ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans, enda hafi verið gripið til fullnægjandi ráðstafana. Úrbætur er þegar hafnar, sem og vinna við fyrirbyggjandi aðgerðir.  Skólasetning verður í Brekkuskóla fimmtudaginn 22. ágúst næstkomandi.

Síðastliðið vor ákvað umhverfis- og mannvirkjaráð Akureyrarbæjar að ráðast í úttekt á loftgæðum í skólamannvirkjum. Útektin var fyrst og fremst hugsuð sem fyrirbyggjandi aðgerð.

Verkfræðistofan Mannvit, sem hefur víðtæka reynslu af slíkri vinnu, var fengin til að gera úttektina í Brekkuskóla, sérstaklega með tilliti til hugsanlegra raka- og mygluskemmda. Vísbendingar um örveruvöxt sem líklegast er að komi frá rakaskemmdum fundust á afmörkuðum svæðum innan veggja skólans. Sérfræðingar Mannvits töldu að grípa þyrfti til ráðstafana sem er að hluta til lokið, en að þeim uppfylltum eigi skemmdirnar ekki að hafa áhrif á kennslu eða annað starf innan skólans. Unnið er að því að úrbótum verði lokið fyrir skólabyrjun. Frá þessu er greint á vef Akureyrarbæjar.

Starfsmenn Mannvits fóru um byggingarnar í fylgd umsjónarmanna húsnæðisins og fengu upplýsingar um hvar rakaskemmda hefði orðið vart. Mannvit beindi aðallega sjónum að þeim stöðum en einnig voru aðrir hlutar skólans skoðaðir og tekin sýni víða í húsnæðinu. Samtals voru 35 sýni tekin og af þeim voru 26 send til greiningar. Í 10 af 22 ryksýnum fundust vísbendingar um rakaskemmdir. Einnig voru 4 sýni úr byggingarefni, sem hugsanlega var talið skemmt, send til greiningar og ummerki um örveruvöxt fannst í þeim. Úrbætur á þeim stöðum þar sem sýnin voru tekin eru þegar hafnar og hluta þeirra lokið. Höfuðáhersla er lögð á að klára allar viðgerðir sem og að fara í fyrirbyggjandi aðgerðir áður en skólastarf hefst. Þegar viðgerðum á skemmdum verður lokið, verður strax ráðist í víðtækar hreingerningar á húsnæðinu og að því loknu verður sýnataka fljótlega endurtekin.

Niðurstaða starfsmanna Mannvits er að örveruvöxturinn muni ekki hafa áhrif á skólastarf, enda verði strax farið í lagfæringar og gripið til viðeigandi ráðstafana til að draga úr mögulegum áhrifum skemmdanna.

Úttektir á loftgæðum í skólamannvirkjum er langtímaverkefni Akureyrarbæjar sem haldið verður áfram á næstu mánuðum og misserum. Nú þegar hefur verið gerð úttekt í Oddeyrarskóla og er niðurstaðna að vænta innan tíðar.

Heimild: Akureyri.is

Mynd: brekkuskoli.is