Ungur maður játaði innbrot á Siglufirði fyrir lögreglu

Lögreglumenn á Tröllaskaga hafa undanfarna daga lagt nótt við dag í rannsókn á nokkrum málum á Siglufirði. Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum er um að ræða nokkur brot sem tilkynnt hefur verið um á síðustu dögum. Það eru húsbrot, þjófnaður, innbrot og þjófnaður í Grunnskóla Fjallabyggðar og nytjataka og skemmdir á bifreiðum. Á fimmtudaginn komu fram vísbendingar sem beindu sjónum lögreglu að manni á Siglufirði. Hann var yfirheyrður á föstudaginn en neitaði sök og færðu þessar aðgerðir lögregluna ekki nær lausn málsins.
Í gærkvöldi barst lögreglu ábending um ungan mann á Siglufirði sem svaraði til lýsingar á meintum geranda í þessum málum. Þegar lögregla hugðist hafa tal af viðkomandi hljóp hann undan en var handsamaður skömmu seinna. Reyndist vera um ungling að ræða.
Í framhaldinu var rætt við foreldra hans og einnig fundust sönnunargögn sem tengja hann við málin. Fulltrúi frá barnaverndaryfirvöldum var kallaður til og síðan tekin skýrsla af piltinum, þar sem hann gékkst við að hafa verið að verki í öllum tilvikum. Hann hafi verið einn að verki og koma lýsingar hans heim og saman við þær tilkynningar sem lögreglu höfðu borist. Ungi maðurinn var látinn laus eftir skýrslutöku hjá lögreglunni.
Enn á eftir að hnýta upp nokkra lausa enda í rannsókninni og klára skýrslugerð. Að því loknu verður málið sent ákæruvaldi til meðferðar en pilturinn hefur náð sakhæfisaldri.