Í gær fóru fram einliðaleikir í Unglingamót TBS í badminton í Íþróttahúsinu á Siglufirði. Yfir 140 leikir voru háðir í gær og voru úrslitaleikir í einliðaleikjum kláraðir í gær rétt um kvöldmatarleytið. Það var því langur dagur hjá þeim sem lengst náðu í gær. Flokkarnir sem keppa á mótinu eru frá U-11 til U-17 ára. Það voru miklar tilfinningar í gangi hjá yngstu keppendunum sem áttu sumir hverjir erfiða leiki og voru ekki að spila á sinni bestu getu. Þjálfararnir voru þó mættir til að hvetja leikmenn áfram sem áttu erfiðan dag.
Í dag eru tvíliða og tvenndarleikir sem hófust kl. 9:00 og eru síðustu leikirnir eftir hádegið þar sem leikið verður til úrslita.
Liðin sem keppa á mótinu í dag eru: TBS, TBR, Badmintonfélag Hafnarfjarðar, Tindastóll og Hamar.
Myndirnar eru frá fyrsta mótsdeginum. Ljósmyndari frá vefnum var á staðnum og fylgdist með gangi mála.