Unglingalandsmót UMFÍ á Akureyri

Skráning á 18. Unglingalandsmót UMFÍ , sem fram fer á Akureyri um verslunarmannahelgina, hófst 6. júlí síðastliðinn. Þetta verður í fyrsta skipti sem Unglingalandsmót UMFÍ verður haldið á Akureyri. Mótið hefst fimmtudaginn 30.júlí og mótsslit eru um miðnætti á sunnudagskvöldi. Meðal keppnisgreina eru Badminton, Dans, Borðtennis, Fimleikar, Frjálsíþróttir, Hjólreiðar, Júdó, Körfubolti, Strandblak, Sund og Knattspyrna.  Búist er við fjölmennu móti á Akureyri að þessu sinni enda eru fleiri keppnisgreinar en nokkru sinni áður. Á Akureyri er gríðarlega góð keppnisaðstaða til staðar fyrir allar keppnisgreinar.

Mótin hafa vaxið og sannað gildi sitt sem glæsilegar fjölskyldu- og íþróttahátíðir þar sem saman koma þúsundir barna og unglinga ásamt fjölskyldum sínum og taka þátt í fjölbreyttri dagskrá. Unglingalandsmót UMFÍ er vímuefnalaus fjölskylduhátíð þar sem börn og unglingar á aldrinum 11 – 18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum en samhliða er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna.