Ungir Siglfirðingar spila á unglingamóti TBA um helgina

Unglingamót Tennis- og badmintonfélags Akureyrar hefur nú verið haldið í yfir 20 ár og skipar fastan sess í mótaskrá Badminton sambands Íslands á hverju ári. Að þessu sinni eru 95 keppendur skráðir til leiks frá 7 íþróttafélögum; BH, KR, Samherja, TBA, TBR, TBS og UMSB. Í allt verða spilaðir tæplega 200 leikir á 8 völlum í dag og á 6 völlum á sunnudag.

Mótið hefst kl. 10 í dag og spilað er fram að undanúrslitum. Ætla má að keppni ljúki um kl. 18. Á sunnudeginum hefst keppni kl. 9 og þá verða spiluð undanúrslit og úrslit í öllum greinum og flokkum. Keppt er í einliða-, tvíliða- og tvenndarleik í aldursflokkunum U13, U15 og U17.

TBA hvetur alla til að koma og horfa á skemmtilega badmintonleiki í Íþróttahöllinni á Akureyri. Aðgangur er ókeypis!

Hægt er að sjá leikskránna hérna.