Síldarminjasafnið á Siglufirði gæti orðið miðstöð kunnáttu í bátasmíðum í framtíðinni. Ráðinn hefur verið tréskipasmiður á safnið og í undirbúningi er samstarf um verknám við Iðnskólann í Hafnarfirði.

Í fyrra bættist gamli Slippurinn á Siglufirði við safneign Síldarminjasafnsins. Verið er að dytta að húsinu og innan skamms geta gestir fengið að fylgjast þarna með mönnum gera við gamla trébáta og smíða nýja. En það er ekki nóg að varðveita hús og muni. Í nýjum samningi safnsins við menntamálaráðuneytið er hugað sérstaklega að því að þekkingin glatist ekki.

„Þar er því lýst að Síldarminjasafnið annist námskeið í þessa veru gagnvart bátasmíði og viðhaldi þessarar þekkingar til menntunar og í samráði við skóla og önnur söfn í landinu.“

Ungur tréskipasmiður hefur nú verið ráðinn til starfa á safninu, sá fyrsti sem lokið hefur slíku námi á Íslandi í 30 ár. En þeim gæti fjölgað. Síldarminjasafnið og Iðnskólinn í Hafnarfirði ræða nú samstarf við menntun bátasmiða, verknámið færi fram í Slippnum. Með þessu má kannski hindra að aldagömul þekking fari í súginn.

Heimld: ruv.is