Umræðu- og kynningarfundur á Dalvík

Opinn umræðu- og kynningarfundur vegna umsóknar GHD um land undir golfvöll og hvaða tækifæri felast í skipulagi svæðisins til fjölbreyttra útivistarmöguleika.

Golfklúbburinn Hamar boðar til opins umræðu- og kynningarfundar vegna umsóknar klúbbsins um land undir golfvöll í fólkvangi Dalvíkurbyggðar. Bygging golfvallar er mikil framkvæmd sem gefur tækifæri til þess að skipuleggja svæðið í heild til ýmisskonar útivistar með t.d. upplýstum göngustígum, hjólastígum, reiðleiðum og leiksvæði.

Hefur þú skoðun á því hvað á að vera á svæðinu?

Fundurinn verður í Bergi fimmtudaginn 15. september kl. 17:30.

Árið 2015 fékk GHD Edwin Roald golfvallahönnuð til að gera úttekt á möguleikanum á að byggja nýjan golfvöll út frá skíðaskálanum Brekkuseli og jafnframt úttekt á uppbyggingu golfvallarins í Arnarholti til þess að sá völlur myndi standast þær kröfur sem gerðar eru til golfvalla í dag. Skýrslan kom út fyrir s.l. áramót og er aðgengileg á vefsíðu GHD, www.ghdgolf.net og á heimasíðu Dalvíkurbyggðar, www.dalvikurbyggd.is.

Edwin mun segja frá gerð skýrslunnar og fara yfir helstu niðurstöður á fundinum. Þá munu Ágúst Jensson framkvæmdastjóri GA og Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga taka til máls. Eftir erindin verður orðið laust fyrir fundargesti og frummælendur ásamt fulltrúum sveitarfélagsins og Golfklúbbnum Hamri verða til svara.